SVEITARFÉLÖGIN OG ÍBÚARNIR

Saman mynda ríki og sveitarfélög grunnstoðirnar í samfélaginu sem íbúar landsins treysta á. Sameiginlegar tekjur ríkis og sveitarfélaga eiga að standa undir grunnþjónustu í þágu samfélagsins í heild og treysta uppbyggingu innviða almennt.

Vinstri græn leggja áherslu á að sveitarfélögin fái sanngjarnan og fullnægjandi skerf í tekjuskiptingu við ríkisvaldið svo að þau geti tekist á við lögbundin verkefni og sinnt nærþjónustu við íbúana. Mikilvægt er að sveitarfélögin búi við sem jöfnust tækifæri til að veita íbúum þjónustu ekki síst á sviðum menntunar og velferðar.

 • Taka þarf upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um verkaskiptingu og tekjustofna sveitarfélaga í ljósi mjög erfiðrar fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga. Ríkisvaldið þarf að gera sveitarfélögum kleift að sinna lögbundnum verkefnum og mæta þannig auknum kröfum m.a. frá ríkinu þannig að sveitarfélögin geti haldið úti og staðið undir viðunandi grunnþjónustu við íbúana.
 • Tryggja þarf þeim sem hafa fallið út af vinnumarkaði starfsendurhæfingu við hæfi í samstarfi við sveitarfélög.
 • Koma þarf á lýðræðislegu samráði og samtali sem víðast í samfélaginu um þróun fjölbreytts atvinnulífs með aðkomu almennings, grasrótarsamtaka, sveitarfélaga, fræðasamfélags og fyrirtækja.
 • Alltof mörg sveitarfélög skortir mun fjölbreyttari úrræði og þjónustu í heimabyggð fyrir eldra fólk. Taka þarf málaflokkinn til gagngerrar endurskoðunar með hliðsjón af styrkleika hvers samfélags til að takast á við málefni hópsins þannig að velferð þeirra verði tryggð með sem bestum hætti.
 • Komið verði á laggirnar faghópi í samstarfi ríkis og sveitarfélaga sem vinni að sérstakri aðgerðaráætlun sem miði að því með markvissum hætti að útrýma kynbundnu ofbeldi.
 • Mikilvægt er að tryggja, í samstarfi við sveitarfélögin, að leikskólarnir taki við börnum í kjölfar lengingar á fæðingarorlofi. Leikskólar verði lögbundið verkefni sveitarfélaga og verði gjaldfrjálsir í áföngum. Jafnhliða þarf ríkisvaldið að leggja til stóraukna fjármuni í jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að mæta auknum kostnaði við gjaldfrjálsa leikskóla þar sem útilokað er að sveitarfélögin ein geti mætt þeim kostnaðarauka.
 • Finna þarf leiðir til að auka áhuga íbúa almennt á þátttöku í sveitarstjórnarmálum.
 • Standa þarf vörð um fjölbreytta og öfluga grunnskóla, án gjaldtöku.
 • Endurskoða þarf fyrirkomulag tónlistarnáms þannig að ríkið taki ábyrgð á framhaldsstigi í tónlistarnámi eins og öðru námi.
 • Stórefla þarf nám í skapandi greinum í grunnskólum landsins
 • Tryggja þarf almenningssamgöngur með stuðningi ríkisins með hringtengingu um landið. Auka þarf fjölbreytni og möguleika gangandi og hjólandi vegfarenda í þéttbýli. Huga þarf að lestarsamgöngum og borgarlínu í samstarfi við samgönguyfirvöld og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Flugsamgöngur innanlands þurfa að vera hluti af almenningssamgöngum en til að svo geti orðið þarf að stórlækka verð á flugfargjöldum.
 • Gistináttagjald þarf að hækka og skipta tekjunum með mun réttlátari hætti milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélög geti í ríkara mæli brugðist við og mætt stórhækkuðum útgjöldum og kröfum vegna þjónustu við ferðamenn. Ljóst er að alltof lítill skerfur af tekjum af ferðamönnum rennur til sveitarfélaganna.
 • Mikilvægt er að sveitarfélögin fái eðlilega hlutdeild í skattgreiðslum fyrirtækja sem hafa starfsemi á viðkomandi svæði þar sem þau hafa starfsemi sína og njóta þjónustu viðkomandi sveitarfélaga.
 • Stýra þarf stórauknum tekjum ríkisins af ferðamönnum til innviðauppbyggingar og skal þá fyrst horfa til þess að forgangsraða fjármunum í þágu friðlýstra svæða og þar sem helstu náttúruperlur landsins er að finna. Gera þarf mikið átak í þessum málum á næstu árum um land allt til að koma í veg fyrir að frekari náttúruspjöll verði unnin.
 • Hvetja skal sveitarfélög almennt til að huga að svæðum innan sinna marka sem eru til þess fallin að vernda og friðlýsa.
 • Með ört vaxandi ferðamennsku þarf að taka ábyrgar ákvarðanir með náttúruvernd að leiðarljósi og loka viðkvæm svæði af fyrir umferð meðan unnið er að uppbyggingu á innviðum.
 • Mikilvægt er að styðja við uppbyggingu húsnæðis á félagslegum forsendum í samvinnu við verkalýðsfélög og sveitarfélög. Lögfesta á heimildir til sveitarfélaga til að setja ákveðið þak á hækkun leigu til að tryggja öryggi á leigumarkaði.