JAFNRÉTTI TIL NÁMS

Öflug menntun fyrir alla er mikilvægur hornsteinn lýðræðissamfélagsins. Frá bernsku og fram á fullorðinsár eiga allir rétt á því að fá að njóta menntunar; fyrir sig og samfélagið allt. Fjölga þarf kennaranemum fyrir öll skólastig, bæta kjör og starfsumhverfi kennara á öllum skólastigum og leggja áherslu á mikilvægi uppeldis og menntunar í samfélaginu öllu. Styðja ber við öflugt framhaldsskólanám og rannsóknir á háskólastigi enda er það forsenda nýsköpunar og framfara en aukin og margbreytileg háskólamenntun helst í hendur við heilbrigt samfélag og vinnur gegn stéttaskiptingu. Fjölbreytt menntun eykur tækifæri til að þroska hæfileika sína og skapa sín eigin tækifæri. Tryggja þarf að nemendur hafi aðgang að bóknámi, iðnnámi og listnámi og fjölbreyttu tómstundastarfi. Innan opinbers skólakerfis verður að ríkja faglegt frelsi til að fagfólk hafi svigrúm til að móta blómlegt og skapandi skólastarf.

Jafnrétti til náms

Jafnrétti til náms verði tryggt óháð aldri, búsetu og efnahag. Til þess þarf fjölbreytt nám, bóklegt, verklegt og listnám sem og fjarnám um land allt.

Sterkari háskólar

Tryggja þarf að framlög á hvern háskólanema nái sem fyrst meðaltali OECD og í kjölfarið verði þau hækkuð þannig að Ísland standi jafnfætis öðrum Norðurlöndum í takt við samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs.

Lánasjóðurinn

Frelsa þarf námsmenn frá yfirdráttarkerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna og taka upp samtímagreiðslur samhliða því að tryggt verði að námslán dugi til raunverulegrar framfærslu. Eðlilegt er að hluti höfuðstóls námslána breytist í styrk ef námi er lokið á áætluðum tíma og áfram þarf að tryggja að námslán beri í mesta lagi eitt prósent vexti. Endurskoða þarf allt fyrirkomulag Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Skólaþróun og faglegt sjálfstæði kennara

Gera þarf kennarastarfið að fýsilegri kosti, til dæmis með því að efla faglegt sjálfstæði kennara og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum og tryggja fjármunitil hennar.

Sálfræðiþjónusta í skóla

Sálfræðiþjónusta og heilsugæsla verði tryggð í öllum framhaldsskólum.

Faglegt sjálfstæði framhaldsskóla

Horfið verði frá einhliða áformum um styttingu framhaldsskólans og skólum tryggt svigrúm til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaga.

Efling leikskóla

Leikskólar verði lögbundið verkefni sveitarfélaga og gjaldfrjálsir í áföngum. Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

Sterkur grunnskóli

Grunnskólinn er eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins. Standa þarf vörð um fjölbreytta og öfluga opinbera grunnskóla þar sem kennarar, nemendur og fjölskyldur vinna saman að alhliða menntun og þroska barna og ungmenna.