ELDRA FÓLK ER LÍKA FRAMTÍÐIN

Við leggjum áherslu á að engum verði mismunað í samfélaginu vegna aldurs. Eldra fólk þessa lands hefur byggt upp velferðarsamfélagið sem við ættum öll að geta notið. Fyrir stóran hóp er ellilífeyrir undir fátæktarmörkum sem kemur í veg fyrir möguleika til raunverulegrar samfélagsþátttöku. Ljóst er að staða ríkissjóðs er nú með þeim hætti að unnt er að bæta verulega kjör eldra fólks. Hópurinn er misvirkur, allt frá fólki sem er í fullu fjöri og getur áfram lagt mikið af mörkum til samfélagsins, tekið þátt í að móta það og þróa, yfir í fólk sem þarf á mikilli hjúkrun og annarri þjónustu að halda. Til að koma til móts við fjölbreyttar þarfir þessa hóps þarf fjölbreyttar aðgerðir en þó eru fjórar mikilvægastar til að tryggja samfélagsþátttöku og að eldra fólk eigi þess kost að lifa með reisn.

Bætum kjör eldra fólks

Bæta þarf kjör eldra fólks með því að hækka ellilífeyri, hann fylgi launaþróun, og tryggja að enginn sé lengur undir fátæktarmörkum. Hækka þarf skattleysismörk ellilífeyris og draga úr tekjutengingum með jöfnuð að leiðarljósi.

Sveigjanleg starfslok

Samstarf þarf við vinnumarkaðinn í því skyni að gera gangskör að auknum möguleikum eldra fólks á hlutastörfum og sveigjanlegum starfslokum.

Fjölbreytt búsetuúrræði

Við þurfum dvalarheimili og þjónustuíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem hafa þörf fyrir meiri þjónustu í daglegu lífi. Þessi heimili verða byggð í samstarfi sveitarfélaga, lífeyrissjóða og ríkisins.

Átak í hjúkrunarheimilum

Gera þarf átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila þannig að komið verði til móts við þörfina að fullu á næstu 10 árum.