KYN OG KERFI

Mikilvægt er að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis í samfélaginu og brjóta þannig upp kynjakerfi sem er skaðlegt fyrir stöðu, tækifæri og þátttöku allra. Þannig sköpum við betra samfélag fyrir okkur öll óháð kyni.

Kynjakerfið er félagslegt yfirráðakerfi sem þrífst á tvíhyggju og fyrirframgefnum hugmyndum um fólk þar sem konur eru undirskipaðar en karlar yfirskipaðir. Skaðlegar staðalmyndir, einsleitar karlmennskuímyndir, klámvæðing og valdamisræmi eru meðal þess sem verður að stemma stigu við. Misréttið verður enn meira ef fólk fellur ekki að staðalmyndum kynjakerfisins, fatlaðar konur búa oft við tvöfalda mismunun, fólk sem ekki fellur að hefðbundinni skilgreiningu á karli eða konu mætir misrétti, fólk af erlendum uppruna sömuleiðis og svona mætti lengi telja. Öll stefnan sem og aðgerðir og þjónusta í samræmi við hana eiga að taka mið af mismunandi þörfum og vilja fólks. Forðast verður einsleitni í umræðu og aðgerðum í þessum málaflokki þar sem mikil fjölbreytni og oft flókin félagsleg kerfi eru á ferð.

Fullt jafnrétti krefst þess að ráðist sé bæði að rótum kynjakerfisins og einkennum þess. Breytingar til lengri tíma krefjast umbóta á sviði uppeldis- og menntamála en á sama tíma verður að grípa til beinna og tafarlausra aðgerða.

Kynbundinn launamunur

Nauðsynlegt er að útrýma kynbundnum launamun en þá þarf fyrst af öllu að afnema launaleynd að fullu og tryggja gagnsæja og hlutlæga ákvarðanatöku í launamálum.

Styttri vinnuvika

Vinna þarf að styttingu vinnuvikunnar án skerðingar launa og auka þannig lífsgæði almennings og stuðla að jafnari ábyrgð á heimilisstörfum og jafnari tækifærum til þátttöku í samfélaginu, í atvinnulífi og stjórnmálum.

Útrýmum kynbundnu ofbeldi

Gera þarf áætlun í samstarfi ríkis og sveitarfélaga um að útrýma kynbundnu ofbeldi. Komið verði á laggirnar ofbeldisvarnarráði þar sem saman komi allir viðbragðs- og fagaðilar í málaflokknum til að fylgja eftir aðgerðaráætluninni. Berjast þarf gegn stafrænu kynferðsofbeldi í hvívetna.

Jafnréttismenntun

Tryggja þarf menntun á sviði jafnréttis og kynjafræði á öllum skólastigum.

Fæðingarorlof

Efla þarf fæðingarorlofssjóð, lengja fæðingarorlofið til að jafna foreldraábyrgð og stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Jafnframt er mikilvægt að tryggja, í samstarfi við sveitarfélögin, að leikskólarnir taki við börnum strax að afloknu lengdu fæðingarorlofi.

Löggjöf fyrir trans og intersex

Endurskoðum með metnaðarfullum hætti löggjöf um trans og intersex með mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt að leiðarljósi