ÖFLUGT ATVINNULÍF FYRIR SAMFÉLAGIÐ ALLT

Framtíð byggða landsins, atvinnu og efnahags byggist á jöfnum tækifærum óháð búsetu, virðingu fyrir náttúrunni og gróskunni sem þrífst í fjölbreytninni. Þetta nýja gildismat er kjarni atvinnustefnu Vinstri grænna sem byggir á sanngjörnum kjörum, réttlátu skattkerfi, öflugri menntun, samvinnu, sjálfbærni, jöfnuði og félagslegu réttlæti, sem skapar tækifæri til uppbyggingar um allt land.

Mannsæmandi kjör

Tryggja þarf að lægstu laun dugi fyrir grunnframfærslu, að vinnuvikan styttist án kjaraskerðingar og að upphæðir almannatrygginga fylgi launaþróun. Tryggja þarf þeim sem hafa fallið út af vinnumarkaði starfsendurhæfingu við hæfi í samstarfi við sveitarfélög. Útrýma þarf launamun kynjanna og jafna kjör almennt.

Félagsleg undirboð og mansal

Mikilvægt er að koma í veg fyrir mansal, misnotkun á vinnuafli og félagsleg undirboð með samstarfi við verkalýðshreyfinguna, öflugra eftirliti með vinnumarkaðnum og ríkulegum framlögum til mansalsáætlunar stjórnvalda. Innleiða þarf keðjuábyrgð í lög þannig að ekki sé hægt að vísa allri ábyrgð á undirverktaka.

Auðlindir í þjóðareign

Stöndum vörð um auðlindir landsins og skilum þeim í betra ástandi til komandi kynslóða. Auðlindanýting, hvort sem er innan sjávarútvegs, landbúnaðar, orkugeirans eða annars, skal byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og ávallt grundvallast á því að auðlindirnar eru þjóðareign og arðurinn á að nýtast fólkinu í landinu.

Uppbygging innviða

Tryggjum jöfn tækifæri allra til atvinnu með markvissri innviðauppbyggingu samgöngu- og fjarskipta, aukinni grunnþjónustu og menntunarmöguleikum í heimabyggð og jöfnun búsetukostnaðar.

Sjálfbært atvinnulíf

Atvinnulíf á Íslandi þarf að byggja upp í sátt við umhverfi og án þess að gengið sé á hagsmuni komandi kynslóða. Þess vegna er mikilvægt að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun, byggja upp þekkingariðnað og auka þannig verðmætasköpun og styrkja skapandi greinar. Þannig er einstaklingsframtakið virkjað best, möguleikar fyrir félagslegan rekstur aukast og rekstrarforsendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja eflast.

Starfsmannalýðræði

Sköpum svigrúm fyrir fyrirtæki sem rekin eru af starfsfólki og fjármálastofnanir í eigu almennings. Bætum lagaumhverfi til að efla atvinnulýðræði og aðkomu starfsmanna við ákvarðanir og stefnumörkun í stofnunum og fyrirtækjum.

Endurskoðun stuðningskerfis atvinnulífsins

Uppbygging stuðningskerfis atvinnulífsins endurspeglar einfaldara atvinnulíf en nú blasir við. Ferðaþjónusta, nýsköpun og aukin þróun hefðbundinna atvinnugreina er staðreynd. Í samræmi við þessar breytingar þarf að koma á lýðræðislegu samráði og samtali sem víðast í samfélaginu um íslenskt atvinnulíf með aðkomu almennings, grasrótarsamtaka, sveitarfélaga, fræða og fyrirtækja. Meginmarkmiðið með slíkri vinnu yrði að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í sátt við samfélag og auðlindir.