Yfirlýsing forsætisráðherra vegna athugasemda ASÍ

Alþýðusamband Íslands talar um það að ég hafi farið með rangt mál í Kastljósi gærkvöldsins þegar ég benti á að meðaltalslaunaþróun þeirra sem heyra undir kjararáð verði sambærileg við aðra hópa frá árinu 2013 til 2018 svo fremi sem laun þeirra breytist ekki frekar á þessu ári og verði fryst út árið. Er það í samræmi við niðurstöður skýrslu sem unnin var í samráði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins og kom út í febrúar á þessu ári en þar segir orðrétt:

„Ef ekki verður um frekari endurskoðanir að ræða á árinu 2018, þ.e. laun haldist óbreytt frá síðustu úrskurðum kjararáðs til ársloka 2018, yrði launaþróun kjararáðshópsins að meðaltali við þau mörk sem rammasamkomulagið setti og að framan hafa verið metin á bilinu 43-48%. Eins og fram kemur í skýrslunni er launaþróun innan hópsins mjög ólík. Til dæmis hafa héraðsdómarar fengið 35% hækkun en ráðherrar 64% hækkun á sama tímabili. Ef litið er til lengri tíma, t.d. starfstíma kjararáðs frá árinu 2006, blasir við önnur mynd en á því tímabili hafa laun þessara starfsgreina þróast með svipuðum hætti.“

Skýrsluna má finna hér: Starfshópur um málefni kjararáðs

Rétt er að halda til haga að fulltrúi ASÍ skilaði minnihlutaáliti um þessi mál í skýrslunni en í nefndinni sátu þrír fulltrúar ríkisins og þrír fulltrúar launafólks og atvinnurekenda auk Jóhannesar Karls Sveinssonar lögmanns sem var formaður nefndarinnar. Þær breytingar sem gerðar hafa verið og verða gerðar á fyrirkomulagi launa þeirra hópa sem áður heyrðu undir kjararáð byggja á niðurstöðu meirihluta nefndarinnar.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.