Uppbygging Landspítala

Framkvæmdir vegna uppbyggingar Landspítala við Hringbraut eru í fullum gangi. Uppbyggingin er mikilvæg fyrir sjúklinga og aðstandendur, starfsfólk Landspítalans og starfsemi sjúkrahússins í heild sinni. Þessi stærsta framkvæmd lýðveldissögunnar verður öllum til hagsbóta.

Nú er staðan sú að vinna við lokafrágang nýs sjúkrahótels á Hringbrautarlóð er langt komin. Stefnt er að afhendingu hússins í lok árs 2018. Skóflustunga að nýjum meðferðarkjarna verður tekin í haust og unnið er að fullnaðarhönnun hans. Ýmis konar vinna vegna meðferðarkjarnans er auk þess hafin. Nú er unnið að gerð bráðabirgðabílastæða og jarðvegsframkvæmdir vegna fyrsta áfanga meðferðarkjarnans eru hafnar.

Unnið er að útboði á fullnaðarhönnun rannsóknarhúss, og gert er ráð fyrir því að í síðari áföngum uppbyggingar spítalans við Hringbraut verði bygging dag-, göngu- og legudeildarhúss. Samhliða framkvæmdum vegna nýrra bygginga þarf að huga að því hvernig nýta eigi þær byggingar sem fyrir eru á Hringbrautarlóðinni.

Greina þarf hvaða byggingar sem nú þegar eru á Hringbrautarlóð Landspítali mun áfram hafa þörf fyrir. Greina þarf ástand bygginganna, viðhaldsþörf og hvort gera þurfi breytingar á eldri byggingum, og leggja þarf mat á umfang þeirrar vinnu svo tryggt sé að þær verði tilbúnar á tilsettum tíma. Meta þarf einnig hvaða starfsemi mun flytjast úr hvaða byggingum á Hringbrautarlóð. Hið sama á við um byggingar Landspítala utan Hringbrautarlóðar. Einnig þarf að reisa ýmsar stoðbyggingar á lóðinni, til dæmis vörumótttöku, flokkunarmiðstöð, nýja Kringlu o.fl., og undirbúning og hönnun slíkra bygginga þarf að setja af stað hið fyrsta.

Til þess að tryggja að öll þessi vinna muni ganga hratt og vel fyrir sig hef ég ákveðið að setja á fót vinnuhóp sem mun meðal annars hafa það hlutverk að framkvæma ástandsmat eldri bygginga spítalans, gera kostnaðaráætlanir vegna stoðbygginga og verkáætlun um flutning á starfsemi í nýtt húsnæði. Í þeim hópi munu eiga sæti fulltrúar Landspítala, velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins. Í vor skipaði ég samstarfsráð til þess að styrkja samvinnu aðila um uppbyggingu Landspítalans sem er mér til samráðs og ráðgjafar, og ég er viss um að vinnuhópurinn og samstarfsráðið munu einnig eiga gott samstarf. Ég skipaði einnig í vor í ráðgjafarnefnd um Landspítala, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, en nefndin skal vera forstjóra og framkvæmdastjórn til ráðgjafar og álits um starfsemi og rekstur spítalans.

Uppbygging Landspítala við Hringbraut er tæknilega flóknasta framkvæmd Íslandssögunnar. Verkefnið er krefjandi en óumdeilanlegt er að uppbygging Landspítala við Hringbraut verður bylting fyrir spítalaþjónustu á landinu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Grein birtist í morgunblaðinu 31. 08.2018