GRÆN FRAMTÍÐ

Vistkerfi jarðar stendur ógn af markaðshagkerfinu. Gróðasjónarmið hafa ráðið för í umgengni við náttúruna. Markaðshyggjan býður ekki upp á nein svör við þeim vanda sem blasir við. Félagshyggja og sjálfbær þróun er leið til að tryggja framtíð í sátt við náttúruna. Umhverfismál verða að vera miðlæg í samfélaginu þannig að allir geti lagt sitt af mörkum: stjórnvöld, atvinnulíf, frjáls félagasamtök og einstaklingar. Náttúruauðlindir eru sameign þjóðarinnar og allir eiga rétt á heilnæmu umhverfi.

Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra eru stærsta verkefni mannkyns á komandi árum og áratugum. Áhrif þeirra á vistkerfi heimsins geta valdið tjóni í hverju einasta ríki og það er forgangsverkefni að draga úr áhrifum þeirra og undirbúa viðbrögð við þeim.

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda. Náttúran á að njóta vafans og ákvarðanir sem snúast um inngrip í náttúru Íslands verða að taka mið af heildrænni sýn af vistkerfinu öllu og jarðminjum þannig að gæðum náttúrunnar verði skilað áfram til komandi kynslóða.

Mengun í hafi, lofti og á landi getur haft óafturkræf áhrif á vistkerfið. Brýnt er að beita öllum ráðum til að draga úr mengun, draga úr neyslu, endurnýta og endurvinna.

Loftslagsmál – Kolefnishlutlaust Ísland 2050

Ísland á að verða kolefnishlutlaust árið 2050. Hverfa þarf frá áformum um olíuvinnslu, skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa, binda kolefni með mótvægisaðgerðum og strika frekari áform um mengandi stóriðju út af borðinu. Ísland á að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C. Efla þarf rannsóknir á áhrifum hlýnunar á vistkerfi lands og sjávar með sérstakri áherslu á súrnun sjávar en einnig þarf að huga að viðbrögðum vegna hækkunar sjávarborðs um allt land.

Náttúra – Náttúran njóti vafans

Tryggja þarf að gengið verði um náttúruauðlindir Íslands af ábyrgum hætti. Stofna þarf þjóðgarða á miðhálendi og hálendi Vestfjarða og stórefla heilsárslandvörslu. Friðlýsa þarf svæði sem ákvörðuð eru í rammaáætlun og framkvæmdaráætlun náttúruminjaskrár.

Mengun hafs, lofts og lands

Markvisst þarf að draga úr plastnotkun, í umbúðum og annars staðar, og auka endurnýtingu. Kortleggja þarf og bæta eftirlit með notkun hættulegra efna og auka fræðslu til almennings um áhrif þeirra. Draga þarf úr og efla viðbrögð við mengun frá allri mengandi starfsemi.

Grænt samfélag

Tryggja þarf umhverfisákvæði í stjórnarskrá, að náttúruauðlindir séu í þjóðareign og nýting þeirra sé í sátt við umhverfi og náttúru. Standa þarf vörð um rammaáætlun. Umhverfissjónarmið þurfa að vega þungt í allri ákvarðanatöku ríkisins og styrkja þarf þær stofnanir sem sinna umhverfismálum. Efla þarf almenningssamgöngur auk uppbyggingar innviða samgöngukerfisis í þágu hjólandi og gangandi sem styðja við samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, auka lífsgæði og bæta mannlíf.

Grænt bókhald

Allar stærri áætlanir ríkisins, rekstur ríkisstofnana, frumvörp og þingsályktanir þarf að meta með tilliti til umhverfissjónarmiða, losunar gróðurhúsalofttegunda og auðlindanýtingar.