Um traust, vopn og gagnsæi

Mál síðustu viku var tvímælalaust umræða um vopnaburð sérsveitarmanna á mannamótum hér á landi. Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fundaði á föstudaginn um málefni lögreglunnar og aukinn vopnaburð hennar. Fundarmenn voru sammála um að þörf væri á auknu upplýsingaflæði og opinberri umræðu um þá ákvörðun ríkislögreglustjóra að vopnaðir sérsveitarmenn skyldu vera sýnilegir á fjölskylduhátíðum í sumar.

Nákvæmlega það sama sagði undirrituð viku fyrr þegar vart varð við vopnaða sérsveitarmenn við svokallað litahlaup í miðborg Reykjavíkur og opnaði umræðu sem mörgum fannst nauðsynleg en olli taugatitringi hjá öðrum sem virðast jafnvel andvígir allir umræðu um öryggismál sem ekki fer fram á þeirra forsendum.

Umræðan um vopnaburð lögreglu hefur minnt okkur á að vald er vandmeðfarið og okkur ber að umgangast það af virðingu. Íslenska lögreglan hefur notið mikils trausts og velvildar landsmanna og yfirleitt sinnt vandasömu hlutverki sínu vel. Einmitt þess vegna skiptir máli að umræða um störf lögreglunnar sé opin og gagnsæ þannig að lögreglan geti áfram sinnt því hlutverki í góðri sátt við almenning.

Ekki þarf að líta langt aftur í sögunni eða til fjarlægra landa til að sjá dæmi um að stjórnvöld hafi misbeitt því löggæsluvaldi sem þau fara með. Nægir þar að nefna símahleranir kalda stríðsins þar sem stjórnvöld njósnuðu um pólitíska andstæðinga sína eða þá kynþáttahyggju sem bandarísk stjórnvöld hafa rekið í gegnum löggæslustefnu sína sem hefur meðal annars skilað því að hlutfall svartra í bandarískum fangelsum er langtum hærra en eðlilegt getur talist.

Það er hlutverk stjórnmálamanna sem allir eiga að sinna almannahagsmunum, óháð því hvar í flokki þeir standa, að tryggja eðlilegt jafnvægi milli þess að öryggi allra landsmanna sé tryggt og þeirra valdheimilda sem lögreglan hefur. Þess vegna höfum við Vinstri-græn talað fyrir auknum fjárveitingum til almennrar löggæslu og lagt fram tillögur í þá veru. Um leið höfum við varað við aukinni vopnavæðingu og barist fyrir því að umræðan um hana sé gagnsæ og málefnaleg og grundvallist á rökum og upplýsingu en ekki krampakenndum málflutningi um óskilgreindar ógnir.

Slíkt er heilbrigðismerki á frjálsum lýðræðissamfélögum þar sem almenningur getur treyst því að stofnanir samfélagsins séu réttlátar. Í slíku samfélagi viljum við búa en ekki samfélögum þar sem bannað er að efast um valdið eða ræða ákvarðanir þess með opnum og lýðræðislegum hætti. Vonandi hefur þessi umræða orðið til þess að minna okkur öll á það.