Til hamingju með kvenréttindadaginn

Á þessum degi fyrir þremur árum fögnuðum við 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Af því tilefni var stofnaður Jafnréttissjóður Íslands með samþykkt þingsályktunar um sjóðinn. Ég var einn af flutningsmönnum tillögunnar og þótti sérstaklega vænt um að fá að flytja ávarp við úthlutun styrkja úr sjóðnum fyrr í dag.

Jafnréttissjóður Íslands hefur reynst afar mikilvægt tæki til að efla og styðja við rannsóknir og þekkingarsköpun hér á landi. Verkefnin hafa mörg hver beina þýðingu fyrir stefnumótun og löggjöf á sviði jafnréttismála og hjálpa okkur þannig að feta áfram veginn í átt til aukins jafnréttis.

Jafnréttismál eru þungamiðja í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Skrefin sem tekin verða á þessu kjörtímabili eru stór og smá en samanlagt þoka þau okkur áfram. Við höfum þegar fullgilt Istanbúlsamninginn, gert jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna að lögum og sömuleiðis jafna meðferð á vinnumarkaði. Frumvarp um mannréttindi intersex-fólks er í undirbúningi og mun koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Að auki hefur aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota verið fjármögnuð að fullu og stýrihópur á mínum vegum fylgir þessu starfi eftir þessa dagana með heildarendurskoðun á forvörnum, stefnumótun um stafrænt kynferðisofbeldi, viðbrögðum við #metoo og úrbótum á réttarstöðu brotaþola. Innleiðing jafnlaunavottunar er svo í fullum gangi sem er enn eitt verkfærið til þess að varpa ljósi á og uppræta kynbundinn launamun.

Við vitum að rótgróin viðhorf kynjakerfisins breytast seint og enn er mikið verk óunnið á sviði jafnréttismála. Það er verkefni okkar allra að kyn og kynferði hefti ekki frelsi og réttindi þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi. Við viljum öll geta litið um öxl eftir tíu, tuttugu eða þrjátíu ár, vitandi að við lögðum okkar skál á vogarskálarnar.

Til hamingju með daginn!

Katrín Jakobsdóttir