Þjóðhátíðarræða Lífar Magneudóttur

Ágætu hátíðargestir

Það er mér mikill heiður að vera með ykkur hér í kyrrð og fegurð Hólavallakirkjugarðs til að minnast hjónanna Ingibjargar Einardóttur og Jóns Sigurðssonar og leggja þennan fallega blómsveig að leiði þeirra. Þetta er árviss viðburður og í mínum huga hefur hann alltaf verið táknrænn fyrir þau gildi sem við viljum tileinka okkur sem samfélag – gildi sem ekki úreldast því þau eru sönn og góð þó samtíminn sé breytilegur og tíðarandinn ólíkur.

Það eru 207 ár síðan Jón fæddist, 74 ár síðan Íslendingar öðluðust sjálfstæði og fyrsta desember í ár eru liðin 100 ár frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Inn í þá upptalningu mætti bæta fjölmörgum öðrum ártölum sem við setjum sem vörður í sögu okkar sem þjóðar en þó árafjöldinn standi ýmist á oddatölu eða sléttri tölu þá er alltaf tilefni til að fagna tilvist okkar.

Við þekkjum öll hvernig fjölskyldan fagnar af alls konar tilefnum: stórafmælum, útskrift, áföngum sem er náð, góðu gengi í maraþoni eða árangri  í stóru upplestrarkeppninni. Við fögnum litlu sigrunum með okkar nánustu, stærri sigrum með enn fleirum. Árangri þjóðarinnar fögnum við í sameiningu, kannski á torgi eða túni þar sem margir geta komið saman og við látum veðrið ekki trufla okkur.

Á landinu okkar býr fólk við ólíkar aðstæður. Sumir hafa valið að flytja hingað en aðrir hafa hafnað hér fyrir hálfgerða tilviljun og haft lítið um það að segja. Sumir þekkja ekki annað en Ísland en aðrir þekkja varla Ísland. Um daginn bættust tæplega 70 manns opinberlega í íslensku stórfjölskylduna og því ber að fagna, og ekki síður þeim sem hingað hafa komið en ekki enn tekið þetta skref.

Okkur líður vel þegar við finnum að við tilheyrum hópi og ekki síður þegar okkur gefst færi á að sameinast og styðja hvert annað, eins og til dæmis í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu.  Þegar reynir á fulltrúa okkar á alþjóðavettvangi –  strákana okkar og stelpurnar okkar – leiðum við hjá okkur dægurþras og stöndum með okkar liði í blíðu og stríðu, meira að segja þeir sem hafa engan sérstakan áhuga á íþróttum. Ég vona að minnsta kosti að okkur Íslendingum sé það enn gefið að sameinast þegar okkar litla þjóð þarf á samstöðu og hvatningu að halda. En ef til vill mættum við líta víðar þegar við viljum sýna samhug.

Í dag leggjum við mikið upp úr því að við myndum öll þetta samfélag og séum ein heild. Þrátt fyrir það er staða okkar ólík og rödd okkar missterk. Við styðjum landsliðið öll einni röddu en við styðjum ekki alltaf rétt þeirra sem eiga undir högg að sækja einni röddu.

Keppnisandinn sem gagntekur okkur þegar við – þessi fámenna þjóð – tökumst á við andstæðinga á leikvelli úti í heimi mætti líka grípa okkur á fleiri sviðum. Ef við keppum samhent að því að gera landið okkar að hreinasta, besta og „stórasta“ landi í heimi þar sem enginn líður skort en öllum líður vel getur okkur líka tekist það. Ef við mótmælum öll misrétti og ójöfnuði og tökum höndum saman um að bæta úr óréttlæti eru okkur allar leiðir færar.

„Þú vilt gefa allt, Þórdís,“ sagði Sigurður faðir Jóns einu sinni við Þórdísi konu sína þegar hún var að leysa úr vanda fátæklinga sem til hennar höfðu leitað. Jón Sigurðsson þótti líka greiðvikinn við landa sína og gerði ekki upp á milli stétta og á þeim 40 árum sem hann var ótvíræður leiðtogi Íslendinga í  sjálfstæðisbaráttunni við Dani hafði enginn landi okkar  samband við jafn fjölmennan og fjölbreyttan hóp Íslendinga og hann. Jón reyndi ævinlega að greiða götu þeirra sem til hans leituðu og að rétta stöðu þeirra, rétt eins og Þórdís móðir hans. Ef til vill er það ástæðan fyrir því að hann er enn þann dag í dag þjóðhetja okkar og við fögnum afmæli hans um leið og afmæli lýðveldisins á hverju ári.

Jón Sigurðsson gerði sér eflaust grein fyrir því að hann gæti ekki bjargað þjóðinni einn síns liðs og aðstoðarlaust, enda stóð hann vissulega ekki einn í baráttunni. Honum og félögum hans hefur örugglega líka verið ljóst að enginn sigur í þeirri baráttu kæmi eins og hendi væri veifað og að lítil von væri um árangur. Það ber því vott um einstakt baráttuþrek, stórhug og metnað að leggja ekki árar í bát heldur þraukast við og halda áfram að reyna þar til sigur hafðist. Sjálfstæðisbaráttan var ekki eins og fótboltaleikur þar sem úrslitin ráðast á níutíu mínútum. En þótt kappleikurinn fangi hugann og úrslitin berist fljótt vitum við öll mætavel að hetjurnar okkar á leikvanginum hafa líka unnið og stefnt að því árum saman að komast alla leið þangað. Hugur okkar er hjá þeim og þegar markmaðurinn ver víti frá einum þekktasta knattspyrnumanni heims hoppar hjartað í brjósti Íslendinga og við fögnum ákaft. Hver getur hugsað um annað en fótbolta á þannig stundum?

Ætla má að ef sama kapp og ástríða réði för í öðrum málaflokkum væri samfélag okkar mannanna enn betra. Það er samt von mínog trú að samfélag okkar sé sífellt að batna og ég veit að við höfum  getu til að gera enn betur.

Góðu hátíðargestir.

Margir eru betur í stakk búnir en ég að fjalla um sýn Jóns á sjálfstæði Íslands sem óneitanlega litaðist af viðhorfum hans samtíma. Sum gildin sem hann og samtímamenn hans boðuðu má þó segja að ekki hafi fallið skuggi á þótt birtingarmyndir þeirra hafði ef til vill tekið einhverjum breytingum:

Verndum tungumálið okkar, íslenskuna, því í henni býr aflið sem hnýtir okkur saman.

Stöndum vörð um sjálfstæðið sem við endurheimtum og ræktum það vel með lýðræðislegri þátttöku.

Og umfram allt:  stöndum saman og lokum ekki augunum fyrir neyð þeirra máttminnstu í okkar hópi. Við tilheyrum öll sömu þjóð – við erum systkini, hvort sem það er á íþróttavellinum, fagnandi fyrir framan skjáinn eða á leikvangi dagslegs lífs þar sem við erum öll ómissandi leikmenn í landsliði Íslands.

Gleðilega þjóðhátíð.