Þjóðgarðar og friðlýst svæði

Eitt af stóru verkefnum ríkisstjórnarinnar er að koma á fót þjóðgarði á miðhálendi Íslands. Stærstur hluti Evrópu ber merki umsvifa mannsins en á hálendi Íslands er að finna ein stærstu víðerni álfunnar. Ábyrgð okkar er því mikil að tryggja vernd þessa svæðis, fyrir okkur sjálf, gesti okkar og komandi kynslóðir. Miðhálendið eigum við öll saman þó svo að skipulagsábyrgðin hvíli að stórum hluta á herðum þeirra sveitarfélaga sem ná inn á miðhálendið. Skipulagsgerðin skal þó taka mið af landsskipulagsstefnu en markmið hennar er að viðhalda sérkennum og náttúrugæðum miðhálendisins með áherslu á verndun víðerna, landslagsheilda, mikilvægra vistgerða og gróðurlenda og verðmætra menningarminja.

Annað áherslumál ríkisstjórnarinnar er að styðja myndarlega við uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum og ferðamannastöðum og við landvörslu, bæði á heilsársgrundvelli sem og tímabundið á álagstímum. Yfir 80% af öllum þeim sem sækja landið heim nefna íslenska náttúru sem helstu ástæðu Íslandsfarar og það er því mikilvægt, í efnahagslegum tilgangi, að við gætum þess að aukið álag á þessi svæði rýri ekki gildi þeirra og gæði. Með stórauknum fjölda ferðamanna er brýnt að halda vel á spöðunum og mörg okkar vinsælustu svæði búa við mikinn ágang nú þegar. Sums staðar þarf að byggja upp innviði sem verða að falla vel að landslaginu og annars staðar viljum við sjá sem minnst manngert í umhverfinu. Og alls staðar er þörf á landvörðum. Þeir hafa þann aðalstarfa að sinna eftirliti, miðla nauðsynlegum upplýsingum til gesta svæðanna og fræða þá um eiginleika þeirra og þannig auka þeir jákvæða upplifun ferðamanna af heimsókninni. Í tillögu ríkisstjórnarinnar að fjármálaáætlun til næstu fimm ára er þessum verkefnum tryggt stóraukið fjármagn.

Hugmyndir um landverði í borgum eru ekki nýjar af nálinni. Skotar hafa til margra ára haft landverði á grænum og friðlýstum svæðum innan borgarmarka í mörgum bæja og borga sinna. Þessir landverðir sinna ekki einvörðungu eftirliti, umhirðu og fræðslu úti við heldur eiga sumir þeirra sér fastan sess í skólum borganna þar sem þeir koma að kennslu og miðlun upplýsinga um þessi sameiginlegu gæði. Áhugavert væri að koma á fót sambærilegum störfum landvarða á höfuðborgarsvæðinu. Borgvæðing nútímans hefur gert það að verkum að manneskjan er í minni tengslum við náttúruna en ella. Miðlun upplýsinga og fræðsla um mikilvægi grænna svæða, lífbreytileika, sálfræðilega endurheimt og lýðheilsu tryggir skilning borgarbúa á mikilvægi náttúruverndar. Þessu hlutverki gætu borgarlandverðir sinnt.

Í það heila eru 32 friðlýst svæði á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess eru Bláfjallafólkvangur og Reykjanesfólkvangur, sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa með sér samstarf um. VG í Reykjavík leggur áherslu á að efla samstarf við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um þessi svæði. Þá er kveðið á um það í stjórnarsáttmála að friðlýsingum skuli beitt sem stjórntæki á viðkvæmum svæðum. Skoða þarf fjölgun friðlýstra svæða á höfuðborgarsvæðinu og undirbúa svæðin þannig að verndargildi þeirra haldist, umgengni um þau gangi ekki á gæði þeirra og miðlunin skili sér til borgaranna á öllum aldri og þeirra gesta sem kjósa að sækja okkur heim.

Fólkvangarnir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þurfa á sérstakri athygli að halda enda mikilvæg náttúruverndar- og útivistarsvæði. Áhugavert væri að dusta rykið af hugmyndum um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesi sem gæti í senn stuðlað að aukinni vernd mikilvægra jarðminja og náttúrufyrirbæra og vakið aukna athygli á einstakri jarðfræði Íslands.  Þetta gæti orðið verðugt samstarfsverkefni sveitarfélaganna og stjórnvalda.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

René Biasone, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. René skipar 5. sæti á lista VG til borgarstjórnarkosninganna.