Þar sem hið villta vex…

Þétting byggðar og uppbygging í Miðborginni og gömlu hverfunum hefur kostað ýmsar
fórnir: Þó að það sé yfirleitt engin eftirsjá af óbyggðum lóðum eða bílastæðum, þá þýðir
fækkun þeirra að óræktarbeðum fækkar. Það eru færri njólabeð og færri drullupollar í
borginni.

Fyrir börn eru óræktarbeð og auð svæði ævintýraskógar. Drullupollar eru úthöf og það
sem við fullorðna fólkið sjáum sem vannýtt byggingarland eru leiksvæði. Túnin sunnan
Norræna hússins, þar sem við erum að byggja stúdentagarða eru gott dæmi.
Auðvitað á ekki að stöðva þéttingu byggðar til að vernda njólabeð. En við þurfum að
passa okkur á að borgin tapi ekki þessu hráa, náttúrulega og villta yfirbragði sem er eitt af
því sem gerir borgina okkar heillandi og yndislega.

Reykvíska óræktargarðinn
Okkur vantar óræktargarð með njólum, rabbabara, baldursbrám og drullupollum. Stað
þar sem börn geta komið og gert það sem þeim sýnist. Á rigningardögum geta þau
hoppað í pollum, brotið skæni á þeim og búið til stíflur. Á vordögum geta þau tínt blóm
og gert úr þeim blómsveiga, raðað spýtum og steinum svo úr verði þorp og látið
hugmyndarflugið teyma sig áfram.

Á heitum sumardögum mætti láta renna í litlar vatnslaugar sem börn og fullorðið
fylgdarfólk getur buslað í. Svo væri hægt að tylla sér í grasið og borða nesti.
Griðland fyrir njóla og borgarnáttúru.

Óræktargarðurinn þyrfti að hafa upplýsingaskilti um þær plöntur sem vaxa villtar í
borginni, þau skordýr og pöddur sem boða vorkomuna og annað sem gleður okkur og
gerir lífið fallegt.

Borgir eru manngerð fyrirbæri sem vaxa og taka stöðugum breytingum. Við skulum gæta
að því að þær verði ekki á kostnað þess litla því við þurfum að muna að njóta alls þess litla
sem býr í borginni og borgin býr yfir. Leyfum þúsund njólum að blómstra!

Líf Magneudóttir
Höfundur skipar 1 sæti á lista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor

Greinin birtist fyrst í apríl blaði Miðbæjarblaðsins