Stjórnarandstaðan í stjórnarflokkunum

Það er ekki launungamál að ríkisstjórnin styðst við tæpan meirihluta, eða einn mann. Það hefur þegar vakið upp spurningar varðandi stjórnarmál eins og jafnlaunavottun, sem einhverjir stjórnarþingmenn segjast ekki styðja. Í dag vorum við svo minnt á það að um hina miklu endurskoðun landbúnaðarkerfisins, sem var eitt af stóru áherslumálum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, ríkir fráleitt sátt innan stjórnarliðsins.

Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, sagði í umræðum um matvælagöryggi á þingi fyrr í dag:

Ég vil líka, virðulegi forseti, taka fram og nefna að í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar er talað um jafna stöðu bænda um allt land. Það er ákaflega mikilvægt að við römmum það sérstaklega inn og það tengist meðal annars þessari frægu undanþágu sem mjólkuriðnaðurinn hefur frá samkeppnislögum. Auðvitað má koma henni betur fyrir og ræða hana sérstaklega, en hún er gríðarlega mikilvæg til þess að allir bændur um allt land hafi jafna stöðu.

Þetta er nokkuð athyglisvert, þó ekki eigi þessi afstaða fyrrum formanns Bændasamtaka Íslands að koma á óvart. Hvernig þetta rímar við stjórnarsáttmálann er hins vegar önnur saga, því þar segir:

Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.

Vissulega er afnámi undanþágunnar ekki lofað, aðeins endurskoðun, en enginn þarf að velkjast í vafa um vilja Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, í þessum efnum og hvað endurskoðun þýðir hjá Viðreisn. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er einmitt að finna mál frá ráðherranum þar um:

Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og búnaðarlögum, nr. 70/1998 (undanþágur frá samkeppnislögum og tollkvótar).
Endurskoðuð ákvæði 13. og 71. gr. búvörulaga sem fela í sér undanþágur frá ákvæðum samkeppnis­laga. Endurskoðaðar leiðir vegna úthlutunar tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur. Einnig verður kveðið á um tæknilegar lagfæringar vegna framkvæmda við búvörusamninga. (Mars).

Þá hefur Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, einnig tjáð sig um nauðsyn þess að afnema undanþáguna.

Ekki þarf heldur að velkjast í vafa um vilja Bjartrar framtíðar, sem hefur talað mjög gegn undanþágunni og m.a. sagt:

Slík undanþága vinnur gegn hagsmunum neytenda og þeirra sem vilja hasla sér völl í greininni.

Það verður því athyglisvert að sjá hvernig ríkisstjórninni mun takast að ná fram þessu máli sínu, sem er eitt af stóru málum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, nú þegar ljóst er að formaður fjárlaganefndar styður ekki málið. Í eins manns meirihluta eru allir stjórnarþingmenn jú með neitunarvald, eins og margoft hefur verið bent á.

Kolbeinn Óttarsson Proppé