
Gerum enn betur í Reykjavík!
Reykjavík á að rúma okkur öll – fólkið sem býr í borginni og fólkið sem vill flytja í borgina – sama hvernig við erum og sama hvaðan við komum. Við eigum öll skilið jöfn tækifæri til lífs og leiks og því viljum við Vinstri græn koma til leiðar með sterkara menntakerfi og velferðarþjónustu, öruggu húsnæði, góðum almenningssamgöngum og borgarskipulagi sem tekur tillit til alls þess mannlega en líka náttúrunnar og umhverfisins.
Við vitum að fólki líður best þegar það er frjálst og óheft –undan kröfum samtímans, staðalmyndum kynjanna og hvers kyns ofbeldi en líka þegar það þarf ekki að hafa áhyggjur af hinu daglega amstri og að ná endum saman í Reykjavík.
Og við vitum að fólk þarf að lyfta andanum, bæði í einrúmi og í félagsskap við aðra, sækja söfn og kaffihús, fara í sund og í göngutrúa eða á leikvell eða einfaldlega skjótast til kaupmannsins á horninu. Og allt þetta má gera í Reykjavík. Borgin er fólkið sem í henni býr og fólkið sem hana skapar með tilveru sinni, hugviti, væntumþykju og auðvitað líka hversdagsleikanum.
Við Vinstri græn erum ánægð með höfuðborgina okkar og við viljum halda áfram og gera enn betur í Reykjavík. Með ykkur öllum.
Gerum Reykjavík vinstri græna eftir kosningarnar.
VINSTRI REYKJAVÍK
BYGGJUM UNDIR FÉLAGSLEGA VELFERÐ OG ENDURREISUM VERKAMANNABÚSTAÐI Í SAMVINNU VIÐ VERKALÝÐSFÉLÖGIN
- Fjölgum félagslegum leiguíbúðum um a.m.k. 600 á kjörtímabilinu
- Nýtum sterka stöðu borgarsjóðs í menntakerfið og velferðaþjónustu
- Höldum áfram að afnema gjaldtöku í leikskólum og grunnskólum í áföngum og gerum menntun barna endurgjaldslausa
- Opnum miðstöð innflytjenda í anda Bjarkarhlíðarmódelsins
- Vindum ofan af markaðsvæðingu í skólakerfinu og stöndum vörð um menntun barna
- Aukum samvinnu við húsnæðissamvinnufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni
- Tryggjum félagslega blöndun í öllum hverfum og vinnum gegn stéttaskiptingu


GRÆNA REYKJAVÍK
STÍGUM ENN STÆRRI GRÆN SKREF Í REYKJAVÍK OG GRÍPUM TIL RÓTTÆKRA AÐGERÐA GEGN LOFTSLAGSBREYTINGUM AF MANNAVÖLDUM
- Bætum almenningssamgöngur og komum borgarlínunni í framkvæmd
- Leggjum fleiri hjólastíga í Reykjavík og búum til betri og öruggari tengingar
- Fjölgum grænum svæðum í göngufæri
- Minnkum matarsóun og gerum Reykjavík veganvæna
- Fleiri hlöður um alla borg – fjölgum rafhleðslustöðum í bílastæðahúsum og í götum
- Einföldum stjórnsýsluna með aukinni snjallþjónustu í Reykjavík
- Flokkum enn meira og hefjum lífræna flokkun
- Gerum græna fjárhagsáætlun og tryggjum að öll innkaup borgarinnar séu vistvæn
- Hlúum betur að náttúrulegum og friðlýstum svæðum innan borgarinnar
- Mörkum stefnu um aukin loftgæði í Reykjavík og vinnum gegn svifryki og loftmengun
- Stóraukum kolefnisbindingu, endurheimtum votlendi og blásum til sóknar í skógrækt í borgarlandinu
FEMÍNÍSKA REYKJAVÍK
STÓRBÆTUM KJÖR KVENNASTÉTTA HJÁ REYKJAVÍKURBORG OG ÚTRÝMUM KYNBUNDNU OFBELDI OG MISMUNUN
- Vinnum gegn margþættri mismunun og misskiptingu í Reykjavík
- Hækkum laun ófagmenntaðs starfsfólks
- Upprætum með öllu launamun kynjanna
- Styttum vinnuvikuna og drögum úr streitu
- Höldum áfram að breyta samfélaginu í anda femínískra byltinga undanfarinna áratuga

AÐ VAXA ÚR GRASI Í REYKJAVÍK
Menntun, menning, íþróttir og velferð barna
Börn eru eins og fræ. Við vitum ekki hvers konar blóm þau verða en óhindraður aðgangur að menntun, uppbyggilegu félagsstarfi og bjargráðum er nauðsynlegur til þess að þau geti blómstrað á sínum forsendum. Menntun á að vera fyrir öll börn, allt frá leikskóla og upp úr, óháð fjárhag eða stöðu foreldra þeirra. Hún á að vera endurgjaldslaus.
Brúum umönnunarbilið
Opnum ungbarnadeildir í borgarreknum leikskólum í öllum hverfum
Mönnum leikskólana með fagfólki og styðjum faglegt frelsi þess
Gerum þjónustusamninga við dagforeldra til að tryggja þjónustu við ung börn
Fullmönnum alla leikskóla
Hækkum laun starfsfólks á leikskólum
Höldum áfram að vinna að gjaldfrjálsum leikskóla
Styrkjum ófaglært starfsfólk á leikskólum enn frekar til að verða leikskólakennarar
Höldum áfram að bæta starfsaðstæður starfsfólks leikskóla
Aukum afleysingu og undirbúningstíma á leikskólum
Framúrskarandi borgarreknir grunnskólar
Höldum áfram að vinna að gjaldfrjálsum grunnskóla
Vindum ofan af markaðsvæðingu skólakerfisins
Eflum faglegt sjálfstæði og sveigjanleika grunnskólakennara í öllum fögum og tryggjum fjármagn til þess
Eflum kennslu list-, verk- og tæknigreina
Aukum fjölbreytni í skólamötuneytum með grænmetis- og vegan-valkostum
Stóreflum safnkost grunnskólabókasafna
Eflum móðurmálskennslu og íslenskukennslu fyrir börn með annað tungumál að móðurmáli
Öflugar félagsmiðstöðvar og frístundaheimili
Fjölgum heilsársstörfum og komum frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum í varanlegt og viðunandi húsnæði
Stóreflum 10-12 ára starf félagsmiðstöðvanna
Jöfnum aðgengi barna með félagslegum stuðningi í félagsmiðstöðvum
Festum í sessi rekstur hinsegin félagsmiðstöðvar
Styðjum við þarfir 16-18 ára ungmenna um frístundastarf
Barnamenning og öflugt íþróttastarf
Opnum barnamenningarhús með skapandi starfi með börnum og fyrir börn
Vinnum með íþróttahreyfingunni að því að uppræta einelti og kynferðislega áreitni
Fjölgum og stækkum skólahljómsveitir
Bjóðum ungu listafólki upp á aðstöðu til æfinga og sköpunar í húsnæði borgarinnar
Skoðum möguleikana á að opna vísindasafn fyrir börn og fullorðna í borginni
Bjargir fyrir börnin í borginni
Tökum höndum saman við ríkið og tryggjum úrræði sem hægt er að grípa til strax og börn og ungmenni lenda í sálarháska eða fíknivanda
Gerum sálfræðimeðferð aðgengilega fyrir öll börn
Útrýmum barnafátækt með því að draga úr gjaldtöku í grunnþjónustu við börn og afnemum gjaldtöku í menntakerfinu
Minnkum álag á Barnavernd, fækkum málum á hvern ráðgjafa og eflum eftirlit með þjónustunni
AÐ KOMA UNDIR SIG FÓTUNUM Í REYKJAVÍK
Velferðarþjónusta og húsnæðismál
Það á að vera gott að búa í Reykjavík. Hér á fólk að vilja lifa, læra, vinna, elska og vera. Þess vegna á að huga vel að félagslegri velferð allra íbúa í Reykjavík og innviðum borgarinnar. Þjónusta við alla aldurshópa og hvers kyns fjölskylduform, hvort sem það eru barnafjölskyldur eða einstaklingar, fólk sem þarf aðstoð við hið daglega líf, fólk sem flytur hingað utan úr heimi eða á bara leið framhjá og dvelur í stuttan tíma. Þjónusta borgarinnar á að mæta þörfum fólks og á að vera veitt á samfélagslegum forsendum. Í borginni á að vera fjölbreytt framboð húsnæðis, fjölbreytt íbúasamsetning í hverfum og öruggur og sanngjarnan leigumarkaður. Við eigum öll að geta fundið okkur stað í borginni.
Réttláta Reykjavík
Hækkum fjárhagsaðstoð, setjum framfærsluviðmið fyrir borgina og útrýmum fátækt
Fjölgum úrræðum fyrir börn og setjum viðmið um hámarkstíma við vinnslu mála
Vinnum í anda skaðaminnkandi nálgunar og Húsnæði fyrst-hugmyndafræðinnar
Endurvekjum dagþjónustu fyrir utangarðsfólk í borginni
Stöndum vörð um borgarrekna velferðarþjónustu og útvistum ekki viðkvæmri þjónustu við fólk
Reykjavíkurborg móti sér stefnu um ásættanlegan launamun milli hæstu og lægstu launa hjá borginni
Réttindamiðuð þjónusta við fatlað fólk
Gerum tímasetta áætlun um innleiðingu NPA svo að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi í Reykjavík
Fjölgum búsetuúrræðum sem mæta þörfum fatlaðs fólks og geðfatlaðs
Komum á stuðningsþjónustuteymum sem veita þjónustu á forsendum fatlaðs fólks
Bjóðum fötluðu fólki störf hjá Reykjavíkurborg og hrindum í framkvæmd áætlun um starfsendurhæfingu og virkniúrræði
Stofnum styrkjapott Ferlinefndar fatlaðs fólks sem félög/fyrirtæki geta sótt í til að laga aðgengismálin hjá sér
Húsnæði fyrir fólk, ekki fjármagn
Endurreisum verkamannabústaðakerfið
Styðjum enn frekar við félagslega rekin leigufélög
Útrýmum biðlistum fyrir fólk í brýnni þörf eftir félagslegu leiguhúsnæði
Fjölgum félagslegum leiguíbúðum um 600 á kjörtímabilinu
Náum tvíhliða samningum við Airbnb og endurheimtum húsnæði sem er farið af langtímaleigumarkaði undir ferðamennsku
AÐ ELDAST Í REYKJAVÍK
Aldursvæn borg
Fólk á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að eldast í sífellt vaxandi og stækkandi borg. Reykjavíkurborg verði aldursvæn borg þar sem eldra fólk hefur val um búsetu og þjónustu og fær að njóta lífsins á þann máta sem það kýs.
Heilsuefling og lífsgleði eldra fólks
Tökum í gagnið menningar- og lýðheilsukort fyrir eldra fólk
Fjölgum verkefnum sem stuðla að samveru kynslóða á borð við háskólanema sem leigja íbúðir í þjónustuíbúðakjörnum fyrir aldraða
Klárum innleiðingu endurhæfingar í heimahúsi
Við skipulag borgarinnar þarf að taka tillit til þarfa eldri borgara
Innflytjendur og hinsegin fólk eldist líka. Fræðum starfsfólk um ólíka stöðu eldra fólks í samfélaginu
Lækkum gjaldskrár á eldra fólk sem býr við fátækt
Húsnæði og þjónusta við eldra fólk
Fjölgum hjúkrunarrýmum um 200 á kjörtímabilinu
Eflum heimaþjónustu og heimahjúkrun með auknum fjárveitingum frá ríkinu og komum á fót sérhæfðri heimahjúkrun fyrir heilabilaða
Aukum framboð af fjölbreyttum búsetukostum fyrir eldra fólk
ANDRÝMIÐ Í REYKJAVÍK
Menningin, umhverfið, náttúran og skipulag borgar
Reykjavík iðar af fjölbreytni, lífi og fjöri, fólk er atorkusamt og horfir fram á veginn, skapar, framkvæmir og upplifir. Reykvíkingar búa við það lán að geta bæði verið í skarkala mannlífsins og hringiðu menningar, lista og fjölbreyttrar afþreyingar en líka upplifað mikla nálægð við ósnortna náttúru, hafið og dýralíf. Hvort tveggja er sérstaða sem við verðum að vanda okkur við að hlúa að. Fjölbreytt menningarlíf og ákveðnari skref í umhverfismálum borgarinnar á að vera lykilatriði í öllu skipulagi og ákvörðunum svo við getum búið til borg fyrir bæði menn, gróður og dýr.
Menning fyrir okkur öll
Tryggjum söfnum og menningarstofnunum í Reykjavík góð starfs- og vaxtarskilyrði og faglegt frelsi
Við viljum öflug menningarhús í hverfabókasöfnunum
Við ætlum að auka aðgengi fólks að menningu, meðal annars með afslöppuðum sýningum og táknmálstúlkun
Aukum áherslu á fjölþjóðlega menningu og aukum aðgengi og þátttöku innflytjenda að listviðburðum borgarinnar
Fleiri hátíðir og öflugri menningarstarfssemi út í hverfin
Lyftum umhverfi okkar upp með fleiri útilistaverkum, gosbrunnum og veggjalist og fjölgum verkum eftir konur í borgarlandinu og gerum þær sýnilegar
Stærri græn skref
Stígum fastar til jarðar i umhverfisvernd í Reykjavík, aukum loftgæði og vatnsgæði og bætum frárennslismál
Hefjum framkvæmdir við borgarlínu í samvinnu við ríkið
Aukum tíðni ferða og bætum leiðakerfi Strætó
Fjölgum hjólastígum og rafhleðslustöðvum og gerum bílaflota borgarinnar vistvænan
Stofnum gestastofu um náttúrufræðslu í Reykjavík og fræðum íbúa um náttúru og menningararf
Flokkum meira og sóum minna
Flokkum meira sorp og byrjum að flokka lífrænt
Komum í veg fyrir matarsóun og gerum Reykjavík veganvæna
Drögum stórlega úr innkaupum, einnota umbúðum og plasti í borginni
Drögum úr neyslu með vitundarvakningu til borgarbúa
Gerum meiri kröfur til vistvænna innkaupa og innleiðum græna fjárhagsáætlunargerð
Manngert og skipulagt umhverfi
Hugsum um heilsu fólks við skipulag samgangna og byggðar
Framfylgjum Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 og höldum áfram að búa til sjálfbær hverfi
Fáum íbúa með okkur í lið við skipulagningu í nærumhverfi þeirra
Fleiri gróðursæla almenningsgarða í þéttri borg
Verndum eldri byggð og stöndum vörð um söguleg hús
Græn svæði í göngufæri
Verndum ósnerta náttúru og líffræðilega fjölbreytni í borgarlandinu
Ráðum borgarlandverði til að sinna fræðslu og náttúruvernd
Eflum samstarf við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um verndun náttúruverndarsvæða
Bætum gönguleiðir og hjólastíga á milli þéttbýlis og útivistarsvæða
Ferðaþjónusta í sátt við borgarbúa og náttúru
Sköpum sátt milli íbúa, ferðamanna og ferðaþjónustunnar með skýrri stefnumótun um ferðaþjónustu í Reykjavík
Bætum biðskýli á rútustæðum fyrir ferðamenn
Hefjum samstarf við leiðsögumenn um námskeið til að auka þekkingu þeirra á sögu og menningu borgarinnar
Útivistar- og náttúruperlur í Reykjavík, á borð við Bláfjöll, Esjuna, Viðey og Öskjuhlíð, séu gerðar aðgengilegri með almenningssamgöngum
Lyftum margvíslegri sögu borgarinnar upp með aðgengilegum upplýsingaskiltum í borgarlandinu
FRJÁLSA, FEMÍNÍSKA OG RÉTTLÁTA REYKJAVÍK
Reykjavík fyrir okkur öll
Við viljum öll vera frjáls og laus undan oki og ofbeldi, Reykjavík á að vera þannig borg. Byggjum samfélagið á femínískum gildum kvenfrelsis, mannréttinda og fjölmenningar skilyrðislaust. Eitt af stóru verkefnum kvenfrelsisbaráttunnar er að bæta kjör fjölmennra kvennastétta. Í femínísku Reykjavík gefum við engan afslátt af kvenfrelsi og réttindum hinsegin fólks og annarra jaðarsettra hópa í samfélaginu. Femínískar byltingar undanfarinna áratuga eru til marks um hugarfarsbreytingu sem hefur orðið í samfélaginu og við ætlum að halda áfram að vinna að mikilvægum samfélagsbreytingum svo að jafnrétti verði náð.
Útrýmum kynbundnu ofbeldi
Vinnum markvisst að því að útrýma kynbundu ofbeldi með markvissum aðgerðum í samstarfi við lögreglu, heilbrigðis- og menntakerfi
Virkjum karlmenn sérstaklega í baráttunni gegn skaðlegri karlmennsku
Bregðumst við frásögnum kvenna af erlendum uppruna um ofbeldi og fordóma
Eflum kynjafræðikennslu í leik- og grunnskólum og vinnum gegn staðalmyndum kynja
Fjölmenningarborgin Reykjavík
Opnum þjónustumiðstöð fyrir innflytjendur í borginni í anda Bjarkarhlíðarmódelsins í samvinnu við ríki og önnur sveitarfélög
Lögum upplýsingaefni borgarinnar að ólíkum hópum innflytjenda frá öðrum tungumálasvæðum til að auka virkni þeirra í samfélaginu
Styðjum innflytjendur til þátttöku í samfélaginu með sérstakri áherslu á barnafjölskyldur
Ráðum tengilið innflytjenda í hverfum til reynslu og stuðlum þannig að gagnkvæmri aðlögun
Hinseginborgin Reykjavík
Gerum þjónustu borgarinnar aðgengilegri fyrir hinsegin fólk
Festum hinsegin félagsmiðstöð unglinga í sessi
Stóraukum hinseginfræðslu í leikskólum, grunnskólum og á starfsstöðvum Reykjavíkurborgar
Eflum þekkingu fagfólks á stöðu transbarna og gerum grunnskóla transvæna
Leiðréttum laun hjá tekjulægstu hópunum
Klárum að útrýma kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg
Útrýmum stöðluðum hugmyndum um hefðbundin karla- og kvennastörf og aukum þannig náms- og starfsval ungs fólks
Vinnum að breyttu gildismati á verðmætasköpun starfsgreina
Vinnum gegn skaðlegum staðalmyndum á vinnustöðum Reykjavíkurborgar
SNJALLA OG LÝÐRÆÐISLEGA REYKJAVÍK
Framtíðin er samtíminn
Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi í lýðræðistilraunum, þar sem verkefnið „Hverfið mitt“ hefur verið áberandi. Við þurfum hins vegar að leita fleiri leiða til þess að borgarbúar geti haft aðkomu að málum sem varða þá. Í lýðræðissamfélagi dugir skammt að þátttaka borgara sé aðeins bundin við kosningar fjórða hvert ár. Öllum ætti að vera orðið ljóst að frjótt og gott lýðræði einkennist fyrst og fremst af virku samtali. Þar er algert grundvallaratriði að borgarbúar geti haft aðkomu að þeim ákvörðunum sem þá varða og að þegar þeir fá að taka þátt sé framlag þeirra sannarlega tekið með í reikninginn.
Valdið til fólksins
Fleiri ákvarðanir teknar af íbúum, m.a. með íbúakosningum og íbúaþingum
Metum hvort Miklabraut eigi að fara í stokk með aðferðum rökræðukönnunar þar sem íbúar komast að upplýstri niðurstöðu með samtali
Höfum lýðræðislegt samráð um að opna Laugaveg varanlega fyrir gangandi umferð
Opnum grasrótarmiðstöð og eflum félagslegan auð samfélagsins
Gerum tilraunir með val á fulltrúum í hverfisráð
Snjöll og rafræn Reykjavík
Innleiðum snjallar lausnir í velferðarþjónustu og í stoðþjónustu við börn
Klárum rafvæðingu í þjónustu borgarinnar og færum hana nær íbúum
Þátttökufjárhagsáætlunargerð verði þróuð áfram með það fyrir augum að stærri þættir fjárhagsáætlunar fari fyrir íbúa Reykjavíkur