Stærri græn skref

Eitt brýnasta verkefni næstu ára og áratuga er að takast á við loftslagsbreytingar af mannavöldum og
afstýra þeirri ógn sem steðjar að vistkerfi jarðarinnar vegna mengunar og útblásturs
gróðurhúsalofttegunda. Þetta er verkefni sem er alvarlegra og mikilvægara en svo að við getum firrt
okkur ábyrgð eða beðið með aðgerðir.

Borgarlína er ekki eina lausnin!
Á næsta kjörtímabili þurfum við að setja kraft í uppbyggingu borgarlínu, við þurfum að stórefla
reiðhjólastígakerfið, byggja fleiri hleðslustöðvar fyrir rafbíla, draga úr plastnotkun, stórefla skógrækt
til að auka kolefnisbindingu og draga úr mengun og neyslu. Borgin á að fara fyrir með góðu fordæmi
og hvetja íbúana til þess að taka upp grænni lífsstíl.

Vistvænar samgöngur og borgarlína eru mikilvæg skref til þess að draga úr mengun og minnka
kolefnisfótspor borgarbúa. En bílaumferð er aðeins hluti af vandamálinu. Á endanum er rót vandans
óhófleg neysla og sóun sem eru því miður innbyggð í nútímasamfélag. Við kaupum og hendum of
miklu. Of mikið af því sem við notum eru umbúðir eða einnota vörur.

Minni sóun og grænni lífsstíll
Reykjavíkurborg á að leika mikilvægt hlutverk í því að draga úr neyslu og sóun. Það getur borgin gert
með því að ganga fyrir með góðu fordæmi. Borgin verður að draga úr notkun einnota umbúða og
plasts. Mötuneyti í skólum og á vinnustöðum borgarinnar verða að draga úr matarsóun og bjóða upp
á meira vegan og grænmetisfæði.

En borgin getur gert miklu meira. Við eigum til dæmis á að hvetja til og styðja borgarlandbúnað með
fjölgun grenndargarða og með ráðgjöf við borgarbúa sem vilja stunda matjurtarækt í eigin görðum.
Borgargróðurhús sem nýta affalsvatn frá stórum byggingum, t.d. sundlaugum og íþróttamannvirkjum
er annað mikilvægt skref sem við getum stigið.

Reykjavíkurborg á líka að stofna og styðja við vinnustofu á borð við þá sem starfrækt er á Akureyri,
Restart Iceland, þar sem sjálfboðaliðar kenna fólki að gera við minniháttar bilanir í rafmagnstækjum.
Á næsta kjörtímabili verður borgin ekki aðeins að taka fleiri og stærri grænni skref, heldur verður hún
líka að styðja og hvetja íbúana til þess að taka græn skref. Ef við vinnum saman getum við náð árangri
og gert Reykjavíkurborg græna í gegn. Við eigum að vera græn í gegn.

Líf Magneudóttir, Oddviti VG í Borgarstjórnarkosningunum 26 maí næstkomandi

Greinin birtist fyrst í aprílblaði Vesturbæjarblaðsins