Samstaða skilar árangri

Í ár fögnum við hundrað ára afmæli fullveldis á Íslandi. Sjálfstæðisbaráttan var á sínum tíma svo ríkjandi í íslenskri stjórnmálabaráttu að önnur pólitísk barátta féll í skuggann. Samt sem áður er saga verkalýðshreyfingarinnar samofin sögu fullveldisins. Fyrstu verkalýðsfélögin voru stofnuð seint á 19. öld. Alþýðusamband Íslands varð til árið 1916, stofnað fyrir tilstuðlan sjö félaga sem höfðu um 1500 meðlimi og var fjórðungur þeirra konur. Á svipuðum tíma, undir lok 19. aldar, voru fyrstu kennarafélögin stofnuð. Síðar á 20. öld, í breyttu samfélagi, voru stofnuð stéttarfélög starfsmanna ríkis og bæja og síðan stéttarfélög háskólamenntaðra. Jákvæð áhrif þessara félaga á samfélagið hafa verið gríðarleg.

Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja sjálfsögð í dag kölluðu á mikla baráttu. Það var samstaða vinnandi fólks sem skilaði árangri á borð við samningsrétt, uppsagnarfrest, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt og svo mætti lengi telja. Verkalýðshreyfingin hefur að sama skapi haft ómetanleg áhrif á uppbyggingu velferðarkerfisins á Íslandi. Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett árið 1936 eftir miklar umræður á Alþingi þar sem andstæðingar þeirra töldu þau ýta undir almenna leti í samfélaginu. Enn má heyra það viðkvæði þegar barist er fyrir réttindum atvinnulausra svo að dæmi sé tekið.

Verkalýðshreyfingin barðist ötullega fyrir félagslegu húsnæði en lög um verkamannabústaði voru sett 1929. Eins var verkalýðshreyfingin áhrifavaldur þegar Breiðholt byggðist í Reykjavík á sjöunda áratugnum eftir margra ára húsnæðiseklu þar sem fólk bjó í bröggum, sem herinn hafði skilið eftir sig, en þá hafði húsnæðismarkaðurinn verið kosningamál í hverjum sveitarstjórnarkosningum á eftir öðrum. Þá má ekki gleyma baráttunni fyrir styttingu vinnuvikunnar sem nú er aftur komin á dagskrá, fyrst og fremst fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar.

Verkalýðshreyfingin hefur vaxið og dafnað á þessum tíma og haft mikil áhrif. Réttindi hafa batnað stórkostlega, velferðarkerfið hefur verið byggt upp, heilbrigðiskerfið tekið stakkaskiptum og almenn menntun tekið stórstígum framförum. Um leið eru risastór viðfangsefni framundan; að draga úr kostnaði sjúklinga, byggja upp nýtt félagslegt húsnæðiskerfi, lengja fæðingarorlof og endurskoða skatt- og bótakerfi til að tryggja tekjulægri hópum aukið öryggi. Markmiðið hlýtur að vera að vinda ofan af vaxandi misskiptingu í samfélaginu seinustu áratugi og tryggja aukinn jöfnuð.

Ríkisstjórnin hefur sýnt vilja í verki til að vinna með verkalýðshreyfingunni. Eitt fyrsta skrefið var að bregðast við sanngjörnum kröfum um að hækka greiðslur atvinnuleysisbóta og greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa sem hækka í dag, þann 1. maí. Í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar var tónninn sleginn og raunverulegir fjármunir lagðir inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið og samgöngukerfið. Frítekjumark eldri borgara var hækkað og þar með var orðið við kröfu samtaka þeirra. Í nýrri fjármálaáætlun má sjá áform um að draga úr kostnaði sjúklinga, frekari eflingu heilbrigðiskerfisins, sókn í samgöngumálum, eflingu menntakerfisins, bætt kjör öryrkja og svo mætti lengi telja.

Ríkisstjórnin efndi til samráðs við aðila vinnumarkaðarins um fyrirkomulag launa æðstu embættismanna hins opinbera en það var í fyrsta sinn sem þessir aðilar komu að þeirri vinnu. Niðurstaðan varð sú að leggja niður kjararáð í núverandi mynd. Fyrir liggur vilji stjórnvalda til að frysta laun þeirra sem nú heyra undir kjararáð út þetta ár þannig að launaþróun þessara aðila verði í takt við almenna launaþróun. Þá hafa stjórnvöld orðið við kröfu verkalýðshreyfingarinnar að þjóðhagsráð fjalli ekki einungis um efnahagslegan stöðugleika heldur einnig félagslegan stöðugleika. Forystufólk BSRB, KÍ og BHM hefur allt lýst sig reiðubúið að taka sæti í ráðinu en ekki ASÍ – en það er von mín að þar verði breyting á. Það er nauðsynlegt að formgera betur samráð aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda að norrænni fyrirmynd öllum til hagsbóta.

Framundan eru mikilvægar viðræður um þau mál sem hér hafa verið nefnd, ásamt öðrum. Þau skipta máli fyrir allt vinnandi fólk í landinu og kjör þess til langtíma. Nú ríður á að við tökum öll höndum saman og höldum áfram þeirri vinnu sem þegar er hafin og tryggjum þannig að efnahagsleg hagsæld skili sér enn betur til alls almennings í þessu landi.

Ég óska launafólki til hamingju með baráttudag verkalýðsins.

Katrín Jakobsdóttir