Reykjavík fyrir fólk en ekki bíla

Hugmyndin um þéttingu byggðar virðist kalla fram kaldan svita hjá sumum sem sjá fyrir sér gráa borg kassalaga háhýsa, þar sem stríði hefur verið lýst á hendur alls sem er grænt í nafni steinsteypu. Þess í stað eigi að borgin að tryggja að alltaf sé „nægt framboð“ á lóðum í nýjum úthverfum.

Græn eða grá svæði?

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti úthverfum, en ég er sannfærð um að framtíð Reykjavíkur liggur ekki í frekari úthverfavæðingu borgarinnar. Reykjavík á ekki að vaxa út, heldur inn á við.

Ég hef búið í tveimur stórborgum, London og Los Angeles. Þær eru eins ólíkar og orðið getur. London er þéttbýl borg: Í Stór-London búa rétt um 4,500 manns á hverjum ferkílómetra. (Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið rétt um 3,500.) Húsin í London eru háreist, með verslun og þjónustu á neðstu hæð en íbúðir á efri hæðum. Græn svæði eru alltaf í göngufæri og börn labba langflest í skólann. Heilsugæsla, bókasöfn, apótek, kaffihús, matvöruverslanir, fatahreinsanir, tölvuverkstæði og ótal önnur þjónusta var í göngufæri í hverfinu mínu. Hverfistemmningin var sterk enda mætist fólk og kynnist þar sem það hittist gangandi á leið til tannlæknis eða í búðina.

Þessu var þveröfugt farið í Los Angeles. Að vísu var matvörubúð og apótek í göngufæri við íbúðina mína, en til að sækja aðra þjónustu þurfti ég eins og allir aðrir að setjast upp í bíl og keyra. Fyrir vikið hitti ég fólkið sem bjó í hverfinu mínu sára sjaldan. Nánast allar verslanir voru inni í verslunarmiðstöðvum umkringdum bílastæðaeyðimörkum. Og umferðin, maður lifandi! Græn svæði voru mun sjaldséðari og þangað komu allir keyrandi. Í stað útivistarsvæða voru endalaus landflæmi undir umferðarmannvirkjum. Samt er Los Angeles þéttbýlasta stórborg Bandaríkjanna með um 2,000 íbúa á hvern ferkílómetra. Bandarískar stórborgir eru úthverfaborgir.

Framtíð Reykjavíkur

Ég vil miklu frekar sjá Reykjavík þróast í átt að London en Los Angeles. Í úthverfaborgum eins og Los Angeles er bæði dýrt og tímafrekt að sækja mannlíf og menningu, útivist og afþreyingu. Því allt þetta þarf að sækja keyrandi. Dreifðar borgir eru hannaðar fyrir bíla, ekki fólk.

Í stað þess að þenja Reykjavík áfram út með nýjum úthverfum eigum við að þétta byggðina sem er þegar til staðar. Það þýðir ekki að gengið sé á ósnert græn svæði, heldur að við skipuleggjum þegar byggð svæði betur. Enn frekari útþensla byggðar þýðir dýrari innviði, lengri vegalengdir, fleiri bíla á göturnar og meiri tíma sóað í umferð. Og meiri loftmengun.

Ég óttast nefnilega að ef við þéttum ekki byggð þá endum við týnd í bílastæðaeyðimörkum umkringd mislægum gatnamótum, umvafin svifryksskýi. Í staðinn vil ég manneskjuvæna borg þar sem ég get andað léttar og notið mannlífs og grænna svæða í göngufæri.

Greinin birtist fyrst á babl.is