Nýtt neyðarskýli fyrir unga heimilislausa karla sem eru í vímuefnaneyslu

Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag að eða leigja húsnæði þar sem nægt verður að útbúa allt að 25 rúmgóð herbergi eða einstaklingsíbúðir sem nýta má sem neyðarhúsnæði fyrir einstaklinga sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði, verkefnið er viðbót við þau úrræði sem þegar eru í undirbúningi. Nú þegar hefur húsnæðisúræðum fjölgað um 138 á vegum Reykjavíkurborgar frá því í ágúst 2017.

Velferðarráð samykkti auk þess að opna nýtt neyðarskýli fyrir unga heimilislausa karla sem eru í vímuefnaneyslu. Um er að ræða hreina viðbót við þá þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir þessum hópi nú þegar, en nú njóta rúmlega 70 einstaklingar sértækrar aðstoðar.

Framundan er mótun heildstæðrar stefnu um þá þjónustu sem velferðarsvið veitir þeim hópi sem hefur verið skilgreindur utangarðs í samfélaginu. Um er að ræða fjölbreyttan hóp fólks með fjölbreyttar þarfir. Mikilvægt er að stefnan verði unnin í góðu samráði við helstu hagsmunaaðila og þá sem sjálfir eru eða hafa verið í þessarri stöðu.

Í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna kemur fram að aðstoð við viðkvæma einstaklinga sem samfélagið hefur jaðarsett sé ávallt veitt út frá valdeflingu og skaðaminnkun. Unnið verður áfram með verkefni á borð við „Húsnæði fyrst“ og Frú Ragnheiði. Í sáttmálanum kemur auk þess fram að sett verði á fót sérstakt búsetuúrræði fyrir konur með geð- og fíknivanda og skoðað verði að koma upp neyslurými í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.