Mikið verk enn óunnið

Þegar við stofnuðum Rauðsokkahreyfinguna 1970 var staða kvenna á vinnumarkaði heldur bágborin. Reyndar ekki bara á vinnumarkaðnum, heldur alls staðar. Misrétti og kúgun blasti við okkur. Kúgunin fólst í samfélagsgerðinni sjálfri, kynferðislegum fordómum, viðjum uppeldis, þröngsýnni menntastefnu og verka-og hlutverkaskiptingu á heimili, vinnustað og í félagslífi. Svo vitnað sé í viðtal við eina okkar fyrir margt löngu. Það þurfti því svo sannarlega að taka til hendinni og grípa til nýrri og róttækari aðgerða til að berjast fyrir mannréttindum kvenna. Og það var gert. Staða kvenna á vinnumarkaðnum var þegar í upphafi eitt helsta baráttumálið en auk þess var lögð áhersla á málefni barna, fjárhagslegt sjálfstæði kvenna, aukna menntun kvenna og réttinn til að ráða yfir eigin líkama.

Nokkrar staðreyndir frá árinu 1970:

Fyrsta konan ráðherra í ríkisstjórn.

Af 60 alþingismönnum var ein kona.

Þrjár konur voru í fimmtán manna borgarstjórn Reykjavíkur.

Konur voru um þriðjungur mannafla í atvinnulífinu.

Einungis 15% þeirra sem luku prófi frá Háskóla Íslands voru konur.

Átta tíma leikskólapláss var eingöngu í boði fyrir börn einstæðra foreldra og einstakra námsmanna.

Launamunur kynjanna var mikill þrátt fyrir lög um sömu laun fyrir sömu vinnu.

Launajafnrétti og aðstaða kvenna á vinnumarkaðnum

Konur í fiskvinnslu voru eins konar varavinnuafl. Þær voru kallaðar til þegar aflaðist en voru annars heima, að sjálfsögðu launalausar, enda ekki ,,fyrirvinnur”. Launamunur var gífurlegur og ýmiss störf, sem nú eru launuð, voru þá ólaunuð. Konur voru ekki sjálfstæðir skattgreiðendur. Laun giftra kvenna lögðust við laun makans en 50% af launum giftra kvenna voru skattfrjáls. Ástæðan var sögð vera skortur á vinnuafli í láglaunastörfum – störfum þar sem ekki var krafist sérmenntunar. Einstæð móðir greiddi fullan skatt af sínum launum en gift kona einungis 50%. Þetta var ekki leiðrétt að fullu fyrr en á áttunda áratugnum.

Árið 1961 tóku í gildi lög um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, sem Ísland hafði skuldbundið sig til að kom á. Lögin voru afgreidd frá Alþingi 1961 og áttu að taka gildi í áföngum til ársins 1967. Í þeim fólst að hækka skyldi laun kvenna í áföngum til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkamannavinnu, verksmiðjuvinnu og verslunar- og skrifstofuvinnu. Árið 1970 var ljóst að þetta hefði ekki tekist því markmiðum laganna var ekki náð. Lögin frá 1961 dugðu því skammt og augljóst að meira þurfti til en það eitt að treysta á lagasetningu.

Verkfall?

Hugmyndin að kvennafrídeginum 24. október 1975 varð til hjá Rauðsokkahreyfingunni.

,,Væri ekki rétt að fara í verkfall hluta úr degi eða heilan dag” sagði ein okkar. Það myndi sýna, svo ekki yrði um villst, að hjól atvinnulífsins myndu stöðvast ef konur gengju út af vinnustöðum. Við þekkjum öll hvernig fór. Um kvennafrídaginn myndaðist einstök kvennasamstaða og við íslenskar konur vöktum heimsathygli fyrir þessa róttæku baráttuaðferð. Eftir kvennafrídaginn 1975 reyndi enginn að telja okkur trú um að við skiptum ekki máli og smátt og smátt unnust sigrar í aðalbaráttumálunum.

Enn er launamunur kynjanna blettur á okkar samfélagi. Lögbinding jafnlaunastaðalsins skilar vonandi árangri. Mestu skiptir þó að róttæk kvennabarátta haldi áfram. Byltingar eins og #MeToo og #Höfum hátt eru gríðarlega mikilvægar enda ná þær inn í alla króka og kima samfélagsins. Þá er brýnt að sterkir róttækir straumar geri vart við sig innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar þarf að safna liði.

Þrátt fyrir mikilvæga áfanga þá ráðum við illa við markaðskerfið sem ræður svo stórum hluta efnahagslífsins. Enn eimir eftir af því gamaldags viðhorfi að karlar séu fyrirvinnur og að störf þeirra séu mikilvægari en störf kvenna. Og eins og við öll vitum er vinnumarkaðurinn enn töluvert kynjaskiptur.

Við þurfum stöðugt að finna nýjar leiðir til að halda baráttunni áfram, berjast gegn óréttlætinu og stuðla að raunverulegu kvenfrelsi. Á baráttudegi verkalýðsins er vert að minnast þeirra sem rutt hafa brautina til betra þjóðfélags og hvetja okkur öll til að halda þeirri baráttu áfram.

En aðalatriðið er að við, Vinstri græn, göngum hiklaust fram gegn markaðsþjóðfélaginu og hikum ekki við að beita þeim aðferðum sem til þarf hverju sinni til að styrkja samneysluna. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem birt var snemma í apríl, sýnir verulega aukningu samneyslu á næstu árum. Það er mikilvægur pólitískur ávinningur sem kemur okkur öllum til góða.

Til hamingju með daginn!

 

Guðrún Ágústsdóttir

formaður öldungaráðs Reykjavíkurborgar

Guðrún skipar 7. sæti á framboðslista VG til borgarstjórnarkosninga 2018