Lögreglan á að skapa öryggi en ekki ótta í samfélaginu

Ályktun félagsfundar Vinstri-grænna í Reykjavík 15. júní 2017:

 

 

Lögreglan á að skapa öryggi en ekki ótta í samfélaginu

 

Vinstri-græn í Reykjavík gjalda varhug við aukinni vopnavæðingu lögreglunnar og hvetja til þess að allar breytingar sem hana varða séu ræddar ítarlega í opnu og upplýstu samtali sem er grundvallaratriði í lýðræðisríkjum. Slíkt samtal á að byggjast á staðreyndum og má ekki verða til þess að ala á ótta við tiltekna samfélagshópa eins og útlenda ferðamenn og hælisleitendur sem ríkislögreglustjóri vísaði sérstaklega til í þessu sambandi.

 

Það er mikil eðlisbreyting á ásýnd lögreglunnar að vopnaðir sérsveitarmenn sinni almennri löggæslu eins og gerðist á landsleiknum og í litahlaupinu um síðustu helgi í Reykjavík og ríkislögreglustjóri hefur boðað að muni gerast á mannamótum um allt land um ótilgreinda framtíð. Vopnaðir lögreglumenn á fjölskylduhátíðum er meiriháttar stefnubreyting sem er nauðsynlegt að ræða með lýðræðislegum hætti.

 

Vinstri græn hafa ítrekað bent á þann vanda sem lögreglan í landinu býr við. Áætlað er að um 200 almenna lögreglumenn vanti til að mönnun standi undir þeim þjónustu- og öryggiskröfum sem gerðar eru til lögreglunnar. Viðvarandi undirmönnun hefur líka leitt til óhóflegs álags á lögreglumenn í starfi. Mikilvægara er að fjölga lögreglumönnum á götunum en byssum – og margfalt líklegra til að skila árangri og tryggja öryggi almennings um land allt.

 

Það er með öllu ólíðandi að ákvarðanir um meiriháttar stefnubreytingu í löggæslu – breytingu sem hefur víðtæk áhrif á íslenskt samfélag – séu teknar án nokkurrar opinberrar umræðu. Skort hefur á skýringar og mjög óljósar ástæður verið gefnar fyrir auknum viðbúnaði lögreglu. Vinstri-græn styðja öfluga löggæslu og telja að það sé styrkur fyrir löggæsluna að eiga sem best og opnast samtal við almenning í landinu. Vinstri-græn telja einnig að aukin vopnavæðing sé ekki endilega lausn á neinum vanda.

 

Ísland er herlaust og friðsamt land. Við þurfum að gæta vel að því að engar breytingar verði á þeirri stöðu án umræðu. Við getum verið fyrirmynd annarra þjóða og eigum tala fyrir friðsamlegum lausnum og vera hvarvetna rödd friðar og vopnleysis. Þessum sjónarmiðum þarf að halda til haga þegar rætt er um vopnaburð íslensku lögreglunnar.