Leikskólamálin í Reykjavík

Leikskólamálin í Reykjavík eru langt frá því að vera ásættanleg. Laun leikskólakennara og leiðbeinenda eru niðurlægjandi auk þess sem börn komast allt of seint inn á leikskóla. Engin lög eru til um hvenær sveitarfélög eiga að bjóða börnum leikskólapláss og því setja sveitarfélögin sér sjálf viðmið um aldur við inntöku barna. Í Reykjavík er miðað við 18 mánaða aldur þótt oftast séu börn ekki að fá pláss fyrr en um tveggja ára. Verðandi og nýbakaðir foreldrar í Reykjavík mega því búast við að þurfa að bíða í að minnsta kosti eitt ár eftir að fæðingarorlofi lýkur til að komast aftur á vinnumarkað. Það er veruleiki sem blasir við mörg hundruð foreldrum í Reykjavík.

Upphaflegu markmið leikskólanna voru að tryggja börnum sem bestu uppvaxtarskilyrði og tryggja báðum foreldrum jafnan möguleika á vinnumarkaði. Við erum ansi fjarri þeim markmiðum. Mæður brúa oftar umönnunarbilið, konur vinna frekar hlutastörf og eru með lægri laun en karlar.

Dagforeldrakerfið er síðan nánast búið að vera óbreytt frá 1992 og er álíka ólíklegt að komast að hjá dagforeldri og á leikskóla. Dagforeldrakerfið byggir á framboði einkaaðila og sveitarfélögum ber ekki skylda til að niðurgreiða þjónustu þeirra líkt og er með leikskóla. Auk þess held ég að flestir foreldrar myndu frekar velja ungbarnaleikskóla.

Reykjavíkurborg þarf svo sannarlega að grípa til róttækra aðgerða í leikskóla- og dagvistunarmálum. Ég veit ekki hversu lengi við ætlum að horfa upp á kerfi sem þjónar ekki markmiðum sínum og hreinlega eykur á ójöfnuð í okkar samfélagi. Í dag stuðlum við að því að nýbakaðir foreldrar flýja frá Reykjavík enda eru ekki forsendur til að ala upp barn við þessar aðstæður.

Þessu vil ég breyta. Ég vil setja fjármögnun í forgang. Ég vil vera fulltrúi barnafjölskyldna í Reykjavík og ég vil setja alla mína orku í að bæta aðstæður barnafólks. Ég vil að Vinstri græn verði það afl sem kemur Reykjavík upp úr forarpytti í leikskólamálum. Það er eitt stærsta hagsmunamál barnafólks í dag.

Heimildir: 
https://www.bsrb.is/static/files/Utgefid_efni/skyrsla-bsrb-um-dagvistunarurraedi-mai-2017.pdf
https://hagstofa.is/media/50332/konur_og_karlar_2017.pdf

Greinin birtist fyrst á visir.is