Kannast þú við orðið femínismi hlustandi góður …?

Er þessi femínismi ekki alveg kominn út í öfgar? Búið að „kellingavæða allt“, strákar geta ekki lengur lesið sér til gangs og eru upp til hópa ofvirkir og vonlausir. Allir sífellt að ræða um eitthvað #MeToo. Hvenær er nóg nóg? Kannast hlustandi við þessa orðræðu?

Orðin sem eiga það til að rugla okkur

Kynjakerfi (líka nefnt feðraveldi)

Algeng skýring á hugtakinu: Kynjakerfi er kerfi viðhorfa sem hópur deilir með sér. Til dæmis viðhorf sem segir til um hvað sé kvenlegt og hvað karlmannlegt. Samkvæmt ríkjandi kynjakerfi á karlmaður t.d. að vera sterkur, rökfastur og yfirvegaður. Hann skal ennfremur vera fyrirvinna fjölskyldu sinnar og eiga auðvelt með að tileinka sér þekkingu (helst án nokkurrar fyrirhafnar). Konan er aftur á móti tilfinningarík, viðkvæm, full af sköpunarkrafti, samvinnuþýð og setur sig auðveldlega í spor annarra. Að sjálfsögðu ber hún aðal ábyrgð á fjölskyldu og heimili því karlinn er fyrirvinnan. Samkvæmt kerfinu erum við flokkuð í dálka frá fæðingu. Kynjakerfið gerir þannig ráð fyrir að þú fæðist inn í nokkurs konar hús viðmiða. Ef þú ferð út fyrir kerfið, þá getur illa farið.

Staðalímyndir og viðmið

Kynjakerfið er stútfullt af alls kyns viðmiðum sem gjarnan eru nefndar staðalímyndir. Dæmi um staðalímynd er t.d. staðalímynd karlmannsins. Karlmaður er fyrirvinnan (á að vera á góðum launum því hann hefur fyrir fjölskyldu að sjá), hann er sterkur og rökfastur. Staðalímynd konur er n.k. styðjandi kvenleiki. Hún er umhyggjusöm móðir, kyntákn og skapandi. Þessar staðaílmyndir birtast okkur okkur víða. Flest markaðsefni endurspeglar staðlaðar hugmyndir um karla og konur, þrátt fyrir allar þær breytingar sem hafa orðið á hlutverkum kynjanna í nútímasamfélagi.

Af hverju þurfum við að brjóta upp kynjakerfið (örskýring)?

Með því að brjóta upp hefðbundnar staðalímyndir kynjakerfisins drögum við úr skaðlegum áhrifum þess á líf okkar. Ef við leggjum okkur t.d. fram um að brjóta upp staðlaðar hugmyndir karlmennskunnar drögum við úr gjaldi karlmennskunnar. Með því að brjóta niður þetta kerfi viðmiða byggjum við upp jafnrétti – jafnrétti sem kemur okkur öllum til góða. Þá mun samfélagið til að mynda hætta að aga karla. Þeir losna úr í viðjum skaðlegrar karlmennsku og þrældómi fyrirvinnunnar. Þeir fá þá að ákveða sjálfir hvað þeir raunverulega vilja eða vilja ekki. Að sama skapi losnar konan út úr hinu kvenlæga excelskjali – hún fær líka að vera hún sjálf.

Öll eigum við geta valið okkur nám og starfsvettvang óháð kyni – óháð því hvort við erum svona eða hinsegin. Vandi umönnunarstétta leysist ekki með því einu að fjölga körlum í þeim stéttum. Karlkynskennari leysir ekki vanda drengja í skóla. Karlkyns hjúkrunarfræðingur ber ekki ábyrgð á að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Og konur lækka ekki laun karla þegar þær ráða sig í störf í „xkarllægum greinum“.

Femínismi grundvallast af því að kynin búa við misjafna stöðu í samfélaginu. Það þarf að leiðrétta, það er jafnrétti. Með því að vinna gegn kynjakerfinu aukum við jafnrétti – okkar allra. Sama hvernig við erum. Við getum verið karl, kona, trans og allt þar á milli, það skiptir ekki máli því við erum jöfn. Femínisk barátta snýst nefnilega um að breyta samfélaginu, breyta því á þann hátt að það rúmi okkur öll. Við viljum öll öðlast jafnrétti í daglegu líf – því snertir femínisk barátta okkur öll.

Ég vil jafnrétti – þess vegna er ég femínisti!

Þóra Magnea Magnúsdóttir

uppeldis- og menntunarfræðingur og varaformaður VG í Reykjavík