Hið týnda upphaf Reykjavíkur í Elliðárdalnum

Þó Árbæjarhverfi sé ungt hverfi státar það ekki aðeins af einu allra mikilvægasta safni um
sögu Reykjavíkur, Árbæjarsafni, heldur geymir það fjöldi annarra merkilegra sögulegra minja.
Því miður liggja þær flestar undir skemmdum auk þess að vera nánast algerlega faldar.
Þetta er ekki aðeins vandamál í Árbænum. Íbúar Reykjavíkur hafa jafnvel ekki hugmynd um
að stórmerkilegar minjar um sögu Reykjavíkur leynist í skógarrjóðrum, á útivistarsvæðum
eða á opnum svæðum innan um íbúðarhús og leiksvæði barna.

Upphaf Reykjavíkur í Elliðárdal
Gott dæmi um merkilegar sögulegar minjar sem fæstir vita af eru minjar um Innréttingar
Skúla Magnússonar á Árhólmanum í Elliðánum gegnt gömlu Toppstöðinni. Forna þjóðleiðin
milli bæjanna Bústaða og Ártúns liggur þar yfir hólmann sunnan nýlegs göngustígs.
Það sést enn móta fyrir hluta þjóðleiðarinnar þar sem hún liggur á vaði, Artúnsvaði yfir
vestari farveg ánna. Norðan hennar, á eystri bakka ánna er svo að finna fjórar rústir frá um
1750. Hluti þeirra er enn sýnilegur á yfirborðinu þar sem sést móta fyrir rústum sútunarhúss,
þófaramyllu og litunarhúss sem Skúli lét reisa.

Þessar minjar eru hins vegar í slæmu ástandi. Þær hafa sokkið í jarðveg og gróður og eru að
hluta huldar skógi.

Hér þarf að taka til hendinni. Við þurfum að varðveita þessar minjar, merkja þær og gera
sýnilegar. Miðla sögu Innréttinganna, sem eru jú ástæða þess að Reykjavík varð fyrsti alvöru
þéttbýlisstaður landsins.

Fornminjar undir skemmdum í Norðlingaholti
Annað merkilegt minjasvæði í Árbænum er í Norðlingaholti. Þar eru rústir býlisins
Klapparholts inni í skógarrjóðri á holti austan við Norlingaskóla. Holtið er notað sem
útivistarsvæði og rústir býlisins hafa breyst í leiksvæði barna.

Þykkir veggir úr grjóti og torfi standa þó enn inni rjóðrinu og upp við bæjarstæðið má
greinilega sjá hestarétt og fjárhús. Ekkert upplýsingaskilti er á staðnum, né aðrar upplýsingar
sem segja sögu þeirra. Líkt og minjarnar á Elliðaárhólma liggja rústir býlisins undir
skemmdum.

Gerum sögu borgarinnar sýnilegri
Því miður eru þetta ekki einu dæmin um að fornminjar liggi undir skemmdum í borginni, eða
merkilegar sögulegar minjar sem íbúarnir hafi ekki hugmynd um.

Ég hef talað fyrir mikilvægi þess að gerð verði áætlun um hvernig við varðveitum fornminjar í
borginni og hvernig við fléttum slíkar minjar inn í borgarlandslagið og gerum þær
aðgengilegar almenningi. Slík áætlun er sérstaklega mikilvæg í tengslum við þéttingu byggðar
miðsvæðis í borginni, en hún er líka mikilvæg í öðrum hverfum. Því miður hefur slík áætlun
ekki enn litið dagsljósið.

Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði viljum að Reykjavíkurborg ráðist í stórátak til að
gera sögu borgarinnar sýnilegri í borgarlandinu, ekki hvað síst úti í hverfunum –
Reykjavíkursagan er svo sannarlega ekki bundin við Kvosina. Við þurfum að verja mikilvægar
fornminjar sem liggja undir skemmdum og merkja þær betur. Það er öllum hollt að vera
forvitinn um sögu sína og nærumhverfi.

Greinin birtist fyrst í apríl blaði Árbæjarblaðisins.