HEILBRIGT SAMFÉLAG

Fráfarandi ríkisstjórn hefur glatað dýrmætum tíma og henni hefur mistekist að skapa sátt um framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustuna. Á fyrstu hundrað dögum nýrrar ríkisstjórnar mun það verða forgangsverkefni Vinstri grænna að kalla alla aðila að borðinu til að ná saman um uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar og aðgerðaáætlun til að ná því takmarki að árið 2020 verði heildarútgjöld til heilbrigðismála 11% af vergri landsframleiðslu.

Félagslega rekið heilbrigðiskerfi

Félagslegur rekstur heilbrigðisþjónustunnar er grundvallaratriði. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í velferðarþjónustunni. Arðgreiðslur úr heilbrigðisþjónustu eru óásættanlegar, grunnþjónusta og rekstur sjúkrahúsa er ekki gróðavegur.

Aukin framlög til heilbrigðisþjónustu

Auka þarf framlög ríkisins til heilbrigðisþjónustu þannig að þau verði sambærileg við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Við tökum undir kröfu þeirra 86 þúsund sem hafa með undirskrift sinni krafist þess að framlög til heilbrigðismála verði 11% af vergri landsframleiðslu á ári hverju.

Nýr Landspítali

Setja þarf kraft í að ljúka við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og efla um leið sjúkraflutninga og sjúkraflug um land allt.

Stemmum stigu við gjaldtöku

Stefnt skal að því að öll heilbrigðisþjónusta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði gjaldfrjáls og draga markvisst úr kostnaðarþátttöku sjúklinga á kjörtímabilinu. Byrjað verði á að lækka kostnað vegna barna, öryrkja og aldraðra og þjónustu göngudeilda sjúkrahúsanna. Hindrum að hér festist í sessi tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustunni.

Öflugri heilsugæsla

Styrkja þarf heilsugæsluna, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, þannig að hún verði alltaf fyrsti viðkomustaðurinn og koma á valfrjálsu tilvísanakerfi.

Sálin, tennurnar og aðbúnaður aldraðra

Forgangsverkefni er að sálfræðiþjónusta verði hluti af almennri heilbrigðisþjónustu. Sama gildi um tannlækningar, sjúkra-, tal- og iðjuþjálfun. Kanna þarf hagkvæmni þess að koma aftur á fót skólatannlækningum. Fjölga þarf hjúkrunarrýmum og sjá til þess að aldraðir fái lifað með reisn.

Þverfaglegt samstarf og rétturinn til þjónustu

Þróa þarf þverfaglegt samstarf í heilbrigðis- og velferðarþjónustu, það eykur gæði, öryggi og einfaldar aðlögun að þörfum notenda. Skilgreina þarf rétt sjúklinga til þjónustu og setja viðmið og reglur um hámark biðtíma.