Frambjóðendur í forvali 2018

Þorsteinn V. Einarsson

Deildarstjóri unglingastarfs í frístundamiðstöð

3. sæti

32 ára

Ég er 32 ára femínískur fjölskyldufaðir. Ég er með B.Ed í grunnskólakennarafræðum og er í framhaldsnámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.  Hef starfað hjá Reykjavíkurborg síðastliðin 12 ár að félags- og forvarnarmálum. Búinn að sitja í stjórn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar undanfarin sex ár, jafnréttisnefnd BSRB undanfarin tvö ár og tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður fyrir VG. Uppalinn í Grafarvogi og trúlofaður Huldu Jónsdóttur Tölgyes sálfræðingi. Við erum búsett í Háagerði ásamt Ólafi Ísak sex ára og Tinnu Tölgyes sex mánaða.

 

Mínar helstu pólitísku áherslur eru eftirfarandi:

+ Höfum barnið í brennidepli.

+Hugum að heilbrigði og vellíðan barna og unglinga.

+Tryggjum að öll börn komist í leikskóla þegar fæðingarorlofi lýkur.

+Aukum þjónustu félagsmiðstöðva fyrir börn, unglinga og ungmenni.

+Bætum félagslegan stuðning við börn samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

+Eflum femíníska hugsjón hjá öllu starfsfólki borgarinnar.

Lengri útgáfuna af áherslunum mínum, auk nánari viðkynningar á mér, verður að finna á facebook síðu minni.

 

Ég sækist eftir 3. sæti á lista hreyfingarinnar fyrir kosningar til borgarstjórnar í vor. Vonast ég til þess að fá tækifæri til að gera Reykjavík að ennþá betri borg fyrir fjölskyldur. Vil ég því fyrst og fremst vera borgarfulltrúi barna og unglinga.

Björn Teitsson

Blaðamaður

3. sæti

36 ára

Reykjavík er betri borg í dag en hún hefur nokkurn tímann verið. Hún hefur tekið miklum jákvæðum breytingum á skömmum tíma sem býr til betri borgarmynd, hægt og breytilega. Þessu má að miklu leyti þakka Aðalskipulagi Reykjavíkur til 2030. Í fyrsta sinn síðan 1959 er borgin skipulögð með það að leiðarljósi að fólk er mikilvægara en einkabílar. Það er mun róttækari breyting á hugsunarhætti en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Þessu má einnig þakka ótrúlegum vexti í menningarstarfi, grósku í tónlistarlífi, í kvikmyndum og bókmenntum. Það er listin sem skilgreinir okkur, sál þjóðarinnar og andlit hennar út á við. Það er einmitt skipulagið sem býr til grundvöll fyrir fólkið og það er fólkið sem býr til lífsgæðin. Maður/kona er manns/konu gaman.

Ég er 36 ára Reykvíkingur og er með nokkrar háskólagráður, í sagnfræði, þýsku, frönsku og alþjóðasamskiptum. Á minni lífsleið hef ég þó mest lært af fólki í kringum mig, yndislegu samferðafólki sem ég hef kynnst í leik og starfi. Ég hef starfað sem grunnskólakennari, sem blaðamaður og fréttamaður, sem spurningahöfundur fyrir Gettu betur og sem upplýsingafulltrúi hjá mannúðarfélagi.

Ég hef einnig tekið þátt í Hægri breytilegri átt, þverfaglegu verkefni á vegum Reykjavíkurborgar, Hönnunarmiðstöðvar, Samtaka iðnaðarins og fleiri samstarfsaðila um nýja möguleika í búsetu í borgarumhverfi Reykjavíkur. Þá hef ég verið textasmiður og ráðfjafi fyrir Trípólí arkitekta í ýmsum verkefnum fyrir sveitarfélög og einkaaðila. Síðan um sumarið 2016 hef ég verið formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, sem eru þverpólitísk samtök sem vinna að því að berjast fyrir, og auka vitund almennings um fjölbreytta samgöngumáta.

VG er flokkur sem ég treysti til að hafa velferðarmál, mannúðarmál og jafnréttismál að leiðarljósi. En grundvöllurinn fyrir öllu þessu er sterk borg þar sem lífskjör og lífsgæði halda áfram að aukast. Ég vil að Reykjavík haldi áfram að verða betri borg, ég vil að Reykjavík verði borg sem er eftirsóknarverð til að búa í, til að sækja heim, til að flytja til. Ég vil að Reykjavík verði, um ókomna tíð, borg þar sem allt fólk er velkomið, borg fyrir okkur öll. Óháð aldri, kyni, kynhneigð, litarhafti, trúarbrögðum eða stjórnmálaskoðunum.

Takk!

Elín Oddný Sigurðardóttir

Varaborgarfulltrúi

2. sæti

38 ára

Kæru félagar, ég óska eftir stuðningi ykkar í 2. sætið á framboðslista Vinstri grænna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Ég hef lengi unnið að því í störfum mínum fyrir Vinstri græn að tryggja velferð fyrir íbúa Reykjavíkur. Borgin okkar á að vera fyrir okkur öll. Allir borgarbúar eiga að geta lifað með reisn, engin barnafjölskylda á að þurfa að neita sér um nauðsynlega þjónustu vegna efnahags.

Undanfarið kjörtímabil hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir borgarstjórnarflokk Vinstri grænna sem og hreyfinguna í heild. Fyrst sem fulltrúi í menningar- og ferðamálaráði og velferðarráði en frá haustinu 2016 sem varaborgarfulltrúi. Ég gegni nú um stundir bæði formennsku í velferðarráði og mannréttindaráði borgarinnar og sinni ýmsum trúnaðarstörfum fyrir borgarstjórnarflokk Vinstri grænna sem og hreyfinguna í heild. Ég hef gegnt embætti ritara Vinstri grænna frá árinu 2015.

Velferðarmálin eru mér hugleikin sem og mannréttindi fólks. Kvenfrelsi, félagslegt réttlæti, mannréttindi og náttúruvernd í borg eru allt mikilvæg málefni sem eiga erindi við okkur öll.

Ég hef nú síðastliðið ár getað einbeitt mér að vinnu í þágu borgarbúa og tel mig eiga erindi til að gera það áfram næstu fjögur árin. Það gerum við með því að halda áfram að efla velferðarþjónustuna með mannréttindi allra að leiðarljósi. Mikilvæg skref hafa verið stigin til að efla félagslegt húsnæðiskerfi á yfirstandandi kjörtímabili en betur má ef duga skal. Einnig þarf að halda áfram að efla velferðarþjónustuna og hverfa frá ölmusumiðaðri nálgun fortíðar yfir í réttindamiðaða þjónustu framtíðar.

Við þurfum að skapa gott umhverfi fyrir börn og barnafjölskyldur. Eflum faglegt starf skóla og tryggjum öllum aðgang að skóla- og frístundastarfi óháð efnahag. Raunveruleg náttúruvernd í borg snýst um að tryggja aðgang að hreinu vatni og hreinu andrúmslofti. Við þurfum að efla almenningssamgöngur og hlúa vel að umhverfinu, bæði á grænum svæðum og í borgarlandinu. Við þurfum að efla raunverulegt íbúalýðræði og brúa bilið milli íbúa borgarinnar og kjörinna fulltrúa.

Ég bý í Háaleitishverfi ásamt eiginmanni mínum Haraldi Vigni Sveinbjörnssyni tónlistarmanni og börnunum Heklu Björt og Huga Frey. Ég er með meistaragráðu í félags-og kynjafræði frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð og hef lengst af starfað við starfsendurhæfingu, ráðgjöf og kennslu.

Ég óska eftir stuðningi ykkar til að geta haldið þessu mikilvæga starfi áfram, fyrir okkur öll.

Guðbjörg Magnúsdóttir

Grunnskólakennari og trúnaðarmaður í Árbæjarskóla

3. – 5. sæti

38 ára

Forgangsröðum rétt.

Ég er menntaður grunnskólakennari og hef starfað sem slíkur í 8 ár, nú í Árbæjarskóla þar sem ég er einnig trúnaðurmaður. Áður hef ég verið deildastjóri á leikskóla og hef ýmsa aðra reynslu sem viðkemur börnum. Ég bý ásamt eiginmanni mínum, Ragnari Þór Ingólfssyni í Árbæ. Ég er móðir tveggja barna og á einnig þrjú stjúpbörn og sætan Cavalier. Því er kannski ekki að furða að það sem mér þykir mikilvægast að svo stöddu er að ganga ákveðið til verka í bættra samfélagi fyrir börn okkar, þau eru jú framtíðin.

Ég vil koma fólki niður á jörðina og læra að forgangsraða! Að sjálfsögðu þarf að huga að samgöngum hér í borginni en við verðum að huga að og leggja okkur fram í að gera börnum okkar hátt undir höfði.

Ég vil að þessar kosningar snúist um mikilvægi menntakerfisins og sjá oddvita flokkanna ræða um það í stað þess að gera borgarlínuna eða nýjan flugvöll að kosningarmáli. Ef þetta er forgangsröðunin þá erum við í slæmum málum. Ég vil vinna í framtíð borgabúa, í velferð barna. Við verðum að fjármagna grunnstoðir menntakerfisins og verðum að byrja strax.

Ég hef haft miklar áhyggjur af skorti á dagforeldrum og seinagangi í að koma upp ungbarnaleikskólum og hef því skoðað dönsku leiðina sem ég tel að gæti virkað einstaklega vel hér á Íslandi ef sveitafélögin eru tilbúin í það verkefni.

Að sama skapi hef ég áhyggjur af leikskólum Reykjavíkur. Ég hef áhyggjur af manneklu ásamt oft á tíðum lélegu fæði sem þar er í boði. Þrátt fyrir að leikskólar fengu á síðasta ári meiri fé til fæðiskaupa þá virðist sem það hafi ekki skilað sér. Við verðum að átta okkur á því að þetta er hjá sumum börnum eina fæðan sem þau fá yfir daginn vegna fátæktar sem er staðreynd í annars okkar ríka samfélagi.

Skortur á grunn- og leikskólakennurum er gríðarlegt áhyggjuefni og vil ég sjá að ríkið vinni markvisst með sveitarfélögum í að finna leiðir til að bæta þetta. Sveitafélögin virðast ekki geta haldið ein og sér um þessa stóru þætti og því nauðsynlegt að ríkið komi hér að. Þarna skiptir mestu máli að hækka launin, fækka nemendum í bekkjum og fjölga kennurum í skóla. Því er nauðsynlegt að finna leið til að sporna gegn þessum skorti og það sem ég hef fundið á eigin skinni er að við verðum að gera kennarastarfið fjölskylduvænt á ný!

Hversu lengi ætlum við að sætta okkur við að börnin okkar lifi við fjársvelti í skólaumhverfinu. Hugum að börnunum okkar og þeirra velferð.

Forgangsröðum rétt.

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson

Doktorsnemi í heimspeki

2. – 4. sæti

32 ára

Ég brenn fyrir bættu samfélagi, auknu og skilvirku lýðræði, umhverfisvernd og femínískri baráttu. Ég hef verið virkur í Öldu – félagi um lýðræði og sjálfbærni frá 2010 og hef verið Vinstri grænn síðan 2016.

Í mínum huga er framtíðin björt í borg sem er full af tækifærum fyrir okkur öll, þar sem allir þjóðfélagshópar geta bæði notið þess sem borgin hefur upp á að bjóða og tekið fullan þátt í því að bæta hana enn frekar. Þá skiptir máli að við eigum traust og gott net innviða í þéttri byggð með mikla og sterka nærþjónustu og góðum almenningsamgöngum. Slíkt net er hægt að styrkja með auknu lýðræði þar sem leitast verður við að gefa þeim rödd sem ekki hafa hana og styrkja lágværar raddir.

Við þurfum að eiga í samræðum við fólk úr öllum kimum samfélagsins og vera tilbúin að mæta mótlæti og gagnrýni með opnum hug. Í samræðunni opnast möguleikar, nýjar leiðir og vegir til sátta. Með virkara samtali við íbúa borgarinnar getum við mótað framtíðarsýn sem teygir sig vel út fyrir hefðbundna flokkapólitík og út fyrir ramma einstakra kjörtímabila. Þetta má t.d. gera með því að halda borgaraþing í anda þjóðfundanna sem haldnir voru árið 2009 og 2010 þar sem notkun borgarlandsins og sú þjónusta og menntun sem borgin veitir er mótuð í samráði við borgarbúa.

Ég hef setið sem fulltrúi Vinstri grænna í stjórnkerfis- og lýðræðisráði síðan haustið 2016, fyrst sem varamaður og sem aðalmaður frá haustinu 2017. Ég hef verið meðlimur í Öldu – félagi um lýðræði og sjálfbærni frá 2010 og var stjórnarmaður frá 2014-17. Þá hef ég verið formaður Félags áhugamanna um heimspeki síðan 2015. Frá 2014-2016 starfaði ég sem leiðbeinandi á leikskólanum Miðborg.

Ég er fæddur árið 1985 og stunda nú doktorsnám í heimspeki við Háskóla Íslands. Ég er giftur Kristínu Magnúsdóttur, verkefnastjóra hjá Norræna félaginu og saman eigum við tvær dætur, 7 og 10 ára

Hermann Valsson

Grunnskólakennari

3. sæti

52 ára

Kæru félagar!

Á hverju ári tekst borgarstjórn á við krefjandi og mikilvæg verkefni. Verkefni sem ég vil gjarnan fá tækifæri til að taka þátt í. Eitt þessara verkefna stendur þó upp úr hvað mig varðar. Það eru verkefni er snúa að börnum og fjölskyldum þeirra. Málefni leik- og grunnskóla þurfa að vera forgangsmál á næsta kjörtímabili. Fjöldi áskorana bíður okkar á þessum vettvangi. Skólarnir okkar eiga að vera eftirsóknaverðir vinnustaðir – það kemur börnunum okkar til góða. Og það sem kemur börnunum til góða kemur samfélaginu öllu til góða.

Frá því í haust höfum við stigið þörf skref í þá átt að breyta og bæta vinnuumhverfi í leik- og grunnskólum. Sem varaformaður skóla- og frístundaráðs hef ég m.a. stýrt fjölskipaðri nefnd sem skoðar hvernig fjölga megi leikskólakennurum og um leið bæta starfsaðstæður í leikskólum borgarinnar.

Ég er grunnskólakennari, lýðheilsufræðingur og leiðsögumaður auk þess sem ég skipa þriðja sæti á núverandi lista VG í Reykjavík. Í vetur hef ég kennt við Austurbæjarskóla en þangað kom ég eftir 11 ár í Norðlingaskóla. Allan minn starfsferil hef ég unnið með börnum og ungmennum (sem kennari, þjálfari og í frístundastarfi barna). Þá hef ég sinnt útkennslu af miklu kappi og verið sem slíkur leiðbeinandi norskra kennaranema og í vetur hef ég einnig fengið tækifæri til að fræða íslenska kennaranema um gildi og mikilvægi útikennslu.

Ég er varaformaður skóla- og frístundasráðs og fulltrúi VG í íþrótta- og tómstundaráði. Þá hef ég setið í nokkrum öðrum ráðum á vegum borgarinnar auk þess að vera varaborgarfulltrúi VG 2009-2010. Í níu ár átti ég sæti hverfaráði Grafarholts (formaður í þrjú ár). Ennfremur hef ég stýrt skólanefnd Kvennaskólans, verið fulltrúi í starfshópi um lýðsheilsu í grunnskólum Reykjavíkur, setið í Barna- og unglinganefnd ÍSÍ og á árunum 2009-2014 var ég formaður Íþróttanefndar ríkisins.

Ég er giftur Þóru Magneu Magnúsdóttur og saman eigum við tvö börn; Ernu Hrund og Magnús Val. Afastrákarnir eru tveir, þeir Tinni og Tumi.

Saman getum við mótað og hlúð að Reykjavík. Ég óska eftir stuðningi ykkar til að vinna með borgarbúum fyrir borgarbúa.

Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm

Leikkona, leiklistarkennari og flugfreyja

4. sæti

28 ára

Góðir félagar.

Ég heiti Hreindís og ég gef kost á mér í forvalinu til þess að taka þátt í mikilvægum verkefnum sem framundan eru í borginni.

Ég bjó, lærði og starfaði í sex ár í Englandi, þar sem ég útskrifaðist með BA gráðu í leiklist frá Guildford School of Acting. Að þeim árum liðnum togaði Reykjavík mig heim. Borgin sem býður upp á svo ótal marga möguleika og lífsgæði sem ég saknaði. Borgin þar sem ég get verið svo margt og svarað fleiri en einum titli. Nú bý ég í Fossvoginum og síðan ég flutti heim hef ég starfað sem leikkona og leiklistarkennari, sungið og kennt söng, auk þess er ég ,,sumarflugfreyja“ og tek ríkan þátt í starfi VG.

Ég er ein frambjóðenda meðlimur í UVG, Ungum vinstri grænum, og yngst þeirra sem gefa kost á sér í forvalinu. Það er gríðarlega mikilvægt að ungir borgarbúar eigi fulltrúa í þessum efstu fimm sætum á lista VG fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Listir, menning og skapandi greinar er vettvangur þar sem VG á að vera í fremstu röð en það eru málefni sem eru mér hjartans mál. Ég sé á hverjum degi í starfi mínu sem leiklistarkennari hvað skapandi starf gefur börnum og hvernig það eflir þau.

Femínismi er annað af mínum hugðarefnum. Ég hef verið í framvarðarsveit #metoo byltingarinnar og m.a. verið annar tveggja fulltrúa VG í þverpólitískum samráðshópi um aðgerðir innan stjórnmálaflokka í kjölfar hennar.

Önnur mál þar sem ég vil leggja mitt af mörkum eru geðheilbrigðismál, málefni ungs fólks og græn og snjöll Reykjavík.

Ég hef verið ötul stuðningskona VG á hliðarlínunni frá unglingsaldri en skráði mig strax til leiks og starfa fyrir hreyfinguna þegar ég flutti heim frá Englandi. Hjartað mitt slær í takt við VG og það sem hreyfingin stendur fyrir; jöfnuð, náttúruna, kvenfrelsi og frið. Ég er ritari í stjórn Reykjavíkurfélags VG, skipaði 11. sæti á lista í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir Alþingiskosningarnar og sit í flokksráði.

Jakob S. Jónsson

Leiðsögumaður

4. – 5. sæti

Kæru baráttufélagar!

Ég býð mig fram í 4.-5. sæti í forvali Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík.

Ég er leikhúsfræðingur og leiðsögumaður að mennt og starfa sem leikstjóri og leiðsögumaður, auk þess að vera leiklistargagnrýnandi Kvennablaðsins. Ég bjó um þrjátíu ára skeið í Svíþjóð og tel að reynsla mín af stjórnun og framkvæmd menningarverkefna þar nýtist mér – ekki síst í sveitarstjórnmálum. Ég er félagi í Leiðsögn – félagi leiðsögumanna á Íslandi og sem formaður Kjaranefndar Leiðsagnar á ég sæti í Vinnumálanefnd ASÍ.

Í starfi mínu sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna hef ég með skýrari hætti en áður uppgötvað gildi lands okkar og náttúru, sögu og menningar – og það er ekki síður mikilvægt að sjá það með glöggu auga gestsins, rétt eins og að finna til þess með djúpum rótum heimamannsins. Þessa reynslu vil ég nýta í pólítísku starfi í Reykjavík. Ég hef sérstakan áhuga á málefnum ferðaþjónustu, menningar og verkalýðsmála, en minni á að engu máli verður framgangur unnin án þess að hugað sé að velferðarmálum. Börn, ungmenni, vinnandi fólk og eldri borgarar eiga að finna að hið pólítíska vald beri virðingu fyrir fólki og umhverfi þess, án aðgreiningar og án mismununar.

Innan VG var ég varamaður í stjórn 2015-2017 og er nú varamaður í Flokksráði. Ég sat í starfshópum sem mótuðu stefnu VG í málefnum ferðaþjónustu og í neytendamálum, hvort tveggja brýnir málaflokkar sem varða ekki síst borgarbúa miklu. Þá flutti ég á síðasta Flokksráðsfundi tillögu um að skipaður yrði starfshópur sem móta skyldi stefnu VG gegn spillingu.

Ég á að baki fjölbreyttan starfsferil innan ólíkra starfsgreina og sem kennari við lýðháskóla í Svíþjóð. Reynsla mín af skólamálum frá sjónarhóli foreldra er talsverð. Þessi störf og náin samvinna mín við fjölda fólks heima og erlendis hafa fært mér dýrmæta reynslu sem ég vil leggja fram í þágu Reykvíkinga. Umhverfi og samfélagi vil ég breyta til hins betra.

Jafnrétti og mannréttindi eru undirstaða farsældar, hagsældar og vellíðunar.  Hver einasti borgarbúi á að njóta þess, óháð stöðu, aldri eða uppruna. Ég er talsmaður lausnamiðaðrar samvinnu. Ég bið um stuðning ykkar til að mega vinna í þágu okkar allra, með okkur öllum.

Líf Magneudóttir

Borgarfulltrúi

1. sæti

43 ára

Líf Magneudóttir er borgarfulltrúi Vinstri grænna og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Hún er menntaður grunnskólakennari er í sambúð með Snorra Stefánssyni lögmanni og hagfræðingi. Þau eiga fjögur börn á aldrinum 5- 17 ára og búa í Vesturbæ Reykjavíkur.

Við stjórn Reykjavíkurborgar skiptir miklu máli að hafa við stýrið stjórnmálahreyfingar sem hafa skýra sýn á þróun borgarinnar til langs tíma, geta hlustað og framkvæmt og átt í góðu samtali við öll þau sem gera þessa borg að því sem hún er. Þannig framboð er Vinstrihreyfingin – grænt framboð og þannig framboð vil ég leiða ásamt öflugum, samhentum og fjölmennum hópi félaga minna til sigurs í vor.

Næstu ár munu einkennast af örum vexti á öllum sviðum borgarinnar og við þurfum að setja kraft í að takast á við þá vaxtarverki sem fylgja stækkandi borg. Þar er mikilvæast að horfa til þátta sem snerta daglegt líf borgarbúa með einum eða öðrum hætti. Það verður gert með aukinni uppbyggingu húsnæðis, styrkingu almenningssamgangna, eflingu félagslegra- og efnahagslegra innviða með áherslu á þær stoðir sem varða börn og barnafjölskyldur.

Reykjavík er einstök borg – borg á heimsmælikvarða. Í mínum huga er það ekki efnahagslegt ríkidæmi sem gerir borgir góðar heldur þau mennta- og menningarverðmæti sem þar verða til, félagsauður og velferð, samspil borgarlífs og náttúru ásamt hagkvæmri og vistvænni nýtingu auðlinda sem áfram eiga að vera í almannaeign. Við eigum að standa vörð um og efla þessi auðævi.

Stærstu viðfangsefni stjórnmálanna eru að bregðast við loftslagsbreytingum af mannavöldum, uppræta kynbundið ofbeldi og útrýma efnahagslegu, félagslegu og öðru misrétti. Við þurfum að marka afdráttarlausa stefnu í átt til sjálfbærni og umhverfisverndar, jöfnuðar, mannúðar og mennsku – í öllu tilliti.

Með þáttöku okkar í  meirihlutasamstarfi fjögurra flokka á yfirstandandi kjörtímabili höfum við sýnt hversu mikilvægt það er að Vinstri græn komi að stjórn borgarinnar. Okkur hefur tekist að koma  mörgum mikilvægum málum, sem byggja á áherslum og gildum Vinstri grænna, til leiðar. Ég vil ganga til kosninga með það markmið að efla borgarstjórnarflokk Vinstri grænna og tryggja okkur aukin áhrif til að gera enn  betur í þágu allra borgabúa, ekki síst þeirra sem mest þurfa að reiða sig á þjónustu borgarinnar.

Ragnar Karl Jóhannsson

Uppeldis- og tómstundafræðingur

4. – 5. sæti

35 ára

Ég vil skapa barnvæna borg með góðar almenningssamgöngur, þar sem íbúalýðræðið er virkt með góðum og öflugum hverfisráðum. Ég vil koma að því að skipuleggja borg þar sem það skiptir ekki máli í hvaða hverfi maður er til að sækja þá nærþjónustu sem við þurfum á að halda og almenningssamgöngur nýtist okkur hvert sem er.

Börnin eru framtíð landsins og við þurfum að huga að þeirri þjónustu sem við bjóðum uppá fyrir fjölskyldur í borginni okkar. Öll þjónusta sem borgin getur boðið þeim yngstu frá byrjun er af hinu góða til að bæta stöðu barnafjölskyldna í borginni. Leikskólar og önnur þjónusta þurfa að vera í stakk búin til þess að taka á móti þeim þegar fæðingarorlofi lýkur. Við þurfum að koma til móts við börnin í grunnskóla og miða að þörfum hvers og eins. Hlúa að þeim einstaklingum sem finna sig ekki innan skólakerfis og finna farveg þar sem börnin geta upplifað besta umhverfið til að þroskast og dafna. Á þann hátt getum við unnið að markvissu forvarnarstarfi til að styðja við jaðarhópa á sem jákvæðastan hátt. Með því að hlúa að börnunum, í góðu samfélagi og virkum forvörnum búum við til betri borg.

Eitt af mikilvægustu verkefnum næsta kjörtímabils verður að koma á fót úrræðum fyrir jaðarsetta hópa. Hvort sem það varðar geðheilbrigði, heimilislausa eða jaðarsetta unglinga sem passa hvergi inn í réttu boxin til þess að fá þá þjónustu sem þessir einstaklingar þurfa á að halda.

Ég er uppeldis- og tómstundafræðingur. Ég hef unnið í meira en áratug í frístundargeiranum, bæði í uppeldis-, félags- og meðferðarstarfi og undanfarin ár hef ég verið forstöðumaður á frístundaheimilum. Ég er uppalinn og búsettur í Grafarvogi, er kvæntur Sigurlaugu H. S. Traustadóttur félagsráðgjafa og saman eigum við Hrafnhildi Ásdísi 6 ára og Júlíus Kára 3 ára.

Ég hef verið virkur í VG síðan 2013, 2014 varð ég varamaður í hverfisráði Grafarvogs og tók svo við sem formaður hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals haustið 2016.

Ég tel mig hafa þekkingu og reynslu til þess að nýtast vel á þessum vettvangi og til að vinna að því að bæta þjónustuna í okkar góðu borg.

René Biasone

Sérfræðingur og teymistjóri hjá Umhverfisstofnun

4. sæti

48 ára

Kæru félagsmenn Vinstri grænna.

Ég heitir René Biasone og býð mig fram í 4. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík, sem fram fer þann 24. febrúar. Ég hlakka til að taka þátt í kosningabaráttu fyrir sveitastjórnarkosningarnar.

Ég er bæði ítalskur og íslenskur ríkisborgari og flutti til Íslands árið 2000. Síðan þá hef ég  unnið í 11 ár sem stuðningsfulltrúi á sambýli fyrir fatlað fólk og nú síðastliðin 6 ár hef ég unnið sem sérfræðingur og teymisstjóri náttúrusvæðateymis Umhverfisstofnunar. Ég er kvæntur Pálínu S. Sigurðardóttur og eigum saman tvær dætur.

Ég vil halda áfram baráttunni fyrir eflingu velferðarkerfisins og verndun náttúru Íslands og nýta þekkingu mína og reynslu í þeim málaflokkum. Mikilvægt er að efla leikskóla- og grunnskólakerfið með því að draga úr álagi kennara, bæta kjör þeirra og virða þannig þetta gríðarlega mikilvæga hlutverk þeirra fyrir samfélagið.

Halda þarf áfram að veita fötluðu fólki, öryrkjum og eldri borgurum góða þjónustu og styðja við efnisminna fólks á vettvangi menntunar- og húsnæðismála.

Mikilvægt er að halda áfram og klára þá metnaðarfullu vinnu sem þétting borgarinnar og bætta almenningsamgöngur eru. Í gegnum gott skipulagi borgarinnar er hægt að færa þá þjónustu, sem í dag finnst aðallega í vestanverðri borginni, inn í öll hverfi Reykjavíkurborgar.

Síðast en ekki síst vil ég halda áfram að standa vörð um gæði vatns og lofts borgarbúa, með því að draga úr hættulegri starfsemi á vatnsverndarsvæði, vernda græn svæði og draga úr loftmengun eins og svifryki í Reykjavík. Ég vill leggja mitt af mörkun til að tryggja að borgarbúar lifi í öruggu og heilnæmu umhverfi og bæta þannig lífsgæði þeirra.

Í borgarstjórnarkosningum árið 2014 var ég í 7. sæti á lista hjá VG og ég var valinn fulltrúi í heilbrigðisnefnd. Árið 2015-2017 hef ég verið í flokksráði VG og hópstjóri í umhverfis- og loftlagsmálahópi sem sá um stefnu VG í þeim málaflokki. Í fyrra skipaði ég 6. sæti hjá VG í Reykjavík Suður fyrir Alþingiskosningar.

Undanfarin ár hafa verið mér lærdómsrík og óska ég þess að halda áfram og leggja mitt af mörkum til að bæta samfélagið með jöfnuð, réttlæti og frið að leiðarljósi.

Baráttukveðjur

René