Formlegar meirihlutaviðræður í borgarstjórn hafnar

Þreifingar um meirihlutamyndin í borgarstjórn milli oddvita Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um málefnagrunn leiddu í gær niðurstöðu um að hefja formlegar meirihlutaviðræður. Þær eru hafnar í dag fimmtudag, en tveir fulltrúar frá hverjum flokki taka þátt í þeim. Líf Magneudóttir og Elín Sigurðardóttir taka þátt í viðræðunum af hálfu VG. Markmiðið er að samstarfssáttmáli nýs meirihluta liggi fyrir í góðum tíma fyrir fyrsta borgarstjórnarfund nýrrar borgarstjórnar 19. júní nk. Um viðræðurnar segir Líf Magneudóttir:

“Við ákváðum í baklandi Vinstri grænna rétt fyrir klukkan hálf sjö í kvöld að ganga til viðræðna um myndun meirihluta í borgarstjórn á næsta kjörtímabili. Það hefði vissulega verið frábært að mynda rúman meirihluta með fjölbreyttum flokkum en ég hef trú á að viðræður þessara fjögurra flokka geti leitt til góðs.

Við Vinstri græn teljum mikivægt að sjónarmið umhverfisverndar, kvenfrelsis og félagshyggju vegi þungt við stjórnun borgarinnar og við förum í þessar viðræður með það að leiðarljósi. Þetta er nýtt upphaf og ég er spennt.

Áfram Vinstri græn borg.”