Fleira fólk, færri bíla

Ef aðgerðir til að greiða fyrir vistvænni umferð, auknar almenningssamgöngur, borgarlína, betri
hjólreiðastígar og bætt aðgengi fótgangandi eru „aðför“ eða „stríð“ gegn einkabílnum þá er það mín
skoðun að við þurfum að blása til stórsóknar í því stríði!

Meiri umferð einkabíla þýðir meiri mengun

Það er beinlínis lífsspursmál. Ein áhrifamesta aðgerð sem við getum farið í til að vinna gegn
loftslagsbreytingum af mannavöldum er að draga úr útblæstri bíla og auka vistvænar samgöngur.
Rannsóknir sýna líka að 80% svifryks í borginni kemur frá bílaumferð. Sama má segja um örplast:
Götur og umferð eru stærsta uppspretta örplasts sem berst í sjó á Íslandi. Við útrýmum hvorki svifryki
né örplasti með því að spúla göturnar oftar. Eina raunhæfa leiðin til að draga raunverulega úr
mengun er að menga minna.

Það er ekki hægt, eins og sumir stjórnmálamenn hafa gert, að bölsótast eina stundina yfir því að verið
sé að „þrengja að einkabílnum“ með vistvænum samgöngum og tala hina stundina fjálglega um
metnanarfull markmið í umhverfismálum. Við verðum að velja hvort við viljum verða græn og
umhverfisvæn borg eða hvort við viljum fjölga akreinum, mislægum gatnamótum og auka umferð.

Vistvænar samgöngur eru hagsmunamál allra

Annað sem gleymist í þrasinu um „aðförina að einkabílnum“ er að vistvænar samgöngur hljóta að
vera stærsta hagsmunamál þeirra sem þurfa að nota einkabílinn. Ef allir íbúarnir í nýjum hverfum
austan Elliðaáa þurfa að keyra á einkabílum í vinnuna þýðir það gríðarlega umferðaraukning,með
tilheyrandi mengun, hávaða og töfum. Eina raunhæfa leiðin til að leysa þetta er að gera fólki
auðveldara að taka Strætó, hjóla eða ganga í vinnuna.

Borgarlína og vistvænir samgöngumátar eru ekki „stríð“ eða „aðför“. Þær eru skynsamlegar og
raunhæfar aðgerðir til að minnka tafir í umferðinni, minnka mengun og gera borgina þannig bæði
grænni og betri. Við þurfum líka ávallt að hafa hugfast að framtíð vistkerfis jarðarinnar er í húfi.

Líf Magneudóttir
Höfundur skipar fyrsta sæti á framboðslista Vinstri grænna í Reykjavík

Greinin birtist fyrst í aprílblaði Háaleitis, Laugarness og Bústaðahverfis