SJÁLFBÆRAR ATVINNUGREINAR

Framtíð byggða landsins, atvinnu og efnahags byggist á jöfnum tækifærum óháð búsetu, virðingu fyrir náttúrunni og gróskunni sem þrífst í fjölbreytninni. Þetta gildismat er kjarni atvinnustefnu Vinstri grænna sem byggir á réttlátu skattkerfi, öflugri menntun, samvinnu, sjálfbærni, jöfnuði og félagslegu réttlæti, sem skapar tækifæri til uppbyggingar um allt land. Íslenskt hagkerfi á að verða grænt hagkerfi sem merkir að tryggja þurfi að allar atvinnugreinar byggist á sjálfbærni og fjárfestingar taki mið af umhverfissjónarmiðum.

Sjávarútvegur

Meginmarkmiðið með sterkri sjávarútvegsstefnu er sjálfbær nýting fiskistofnanna, ábyrg umgengni um lífríki hafsins, samhengi í byggðaþróun og síðast en ekki síst að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar.

Fylgja þarf ráðgjöf vísindamanna við nýtingu fiskistofna. Fiskveiðar við Ísland skal stunda fyrst og síðast til manneldis. Eiga skal samstarf við nágrannaþjóðir á sviði rannsókna og nýtingar sjávarauðlinda. Fylgst verði vel með reynslu Færeyinga við uppboð á aflaheimildum þar sem til greina kemur að hluti aflaheimilda verði boðnar upp á markaði hér á landi. Auðlindagjald verði tekið af sjávarútvegsfyrirtækjum í hlutfalli við afkomu greinarinnar. Auka þarf strandveiðar og ráðstöfun heimilda til að verja byggðir landsins.

Landbúnaður

Nýgerður búvörusamningur verði tekinn til endurskoðunar í samræmi við endurskoðunarákvæði samningsins með það að markmiði að tryggja heilnæma og örugga matvælaframleiðslu í landinu og að hagur bænda og neytenda fari saman. Auka þarf nýsköpun og rannsóknir í landbúnaði, vöruþróun sem og möguleika á rekjanleika með upprunamerkingum. Huga þarf sérstaklega að umhverfissjónarmiðum, ábyrgri umgengni við landið, forðast ofbeit og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda greinarinnar sem og bæta möguleika á lífrænum valkostum í hvers kyns landbúnaði.

Ferðaþjónusta

Þjónusta við ferðamenn er orðin ein öflugasta atvinnugrein þjóðfélagsins. Stórbæta þarf aðstöðu ferðamanna og tryggja að ferðaþjónusta og náttúruvernd fari saman. Efla þarf rannsóknir á sviði ferðamennsku og byggja ákvarðanir á bestu mögulegu þekkingu. Auka þarf fjármagn til uppbyggingar innviða á flestum sviðum til að koma á móts við hraða og mikla aukningu ferðamanna til landsins. Stórauka þarf menntun starfsfólks í greininni og koma í veg fyrir hvers konar félagsleg undirboð. Meta þarf áhrif ferðaþjónustunnar á náttúru og umhverfi og efla þolmarkarannsóknir á friðlýstum svæðum, þjóðgörðum og öðrum viðkvæmum svæðum. Setja þarf skýr markmið um vistvæna ferðaþjónustu og nýta enn betur möguleika á að tengja menningu og ferðaþjónustu. Tryggja þarf eðlilegt hlutfall sveitarfélaga í tekjum af ferðaþjónustu.

Nýsköpun og skapandi greinar

Aukin fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun er grundvallaratriði til að tryggja velsæld samfélagsins til framtíðar. Meðal þess sem þarf að gera er að búa betur að verkmenntaskólum og tryggja að fjármögnun íslenskra háskóla verði sambærileg við háskóla á Norðurlöndum. Stefna þarf að því að hlutfall vergrar landsframleiðslu sem renni til rannsókna og þróunar sé 3% í lok kjörtímabilsins. Mikilvægt er að skýra stjórnsýslu skapandi greina innan stjórnkerfisins, tryggja þarf stöðu lista og skapandi greina innan rannsóknasjóða og tryggja að fagleg sjónarmið séu ráðandi við úthlutun opinbers fjár til verkefna á sviði lista og skapandi greina. Bæta þarf hagtölugerð um íslenskt atvinnulíf m.t.t. rannsókna, verðmætasköpunar, skapandi greina, útflutnings og nýsköpunar og nýta hagtölur til stöðugra umbóta í menntun, vísindum og nýsköpun.