Video killed the radio star sungu The Bugg­les í mínu ung­dæmi, en sáu ekki fyrir end­ur­reisn hins tal­aða orðs í hlað­vörpum nútím­ans. In my mind and in my car, we can’t rewind we’ve gone to far, reynd­ist ekki alveg rétt mat. Texta­höf­undar höfðu ekki hug­mynd um að árið 2018 yrði Vera Ill­uga­dóttir stjarna fyrir það að tala við hlust­endur sína um hin ýmsu hugð­ar­efni. Inter­net­ið, með öllum sínum mögu­leikum á því að útvarpa skoð­un­um, gaf fólki um allan heim rödd. Allt í einu gátum við talað saman þvert yfir stiga­ganga, borg­ar­hverfi, lands­hluta, landa­mæri. Við gátum sagt heim­inum hvað okkur fannst um hitt og þetta. Og hlust­að. Svar­að. Hugs­að. Hlustað meira. Svarað aftur og farið svo að sjóða ýsu og kart­öflur í mat­inn. Rök­ræðan varð eðli­legur hluti hins dag­lega lífs, við byrj­uðum mið­viku­dags­morgna á að kanna hvað þessi eða hinn hefði um eitt­hvað að segja á Feis­búkk. Og mánu­dags­morgna. En svo er eins og við höfum hætt að hlusta. Við urðum eins og kall­inn á kass­anum sem finnst ekk­ert mik­il­væg­ara en að koma sínum skoð­unum á fram­færi, skoð­anir ann­arra skipta litlu sem engu.

Inter­netið drap rök­ræð­una. Nei, það er jafn röng full­yrð­ing og ótíma­bærar and­láts­fregnir af útvarps­stjörn­un­um. Inter­netið end­ur­skap­aði rök­ræð­una. Við búum við nýjan veru­leika, þar sem meira máli skiptir að koma á fram­færi skjótum og afdrátt­ar­lausum við­brögð­um, en að hlusta og hugsa áður en við töl­um. Þegar ég segi við, á ég við okkur öll, líka mig og aðra stjórn­mála­menn.

Hlustum meira

Ég hef löngum ferð­ast með minn kassa í gegnum líf­ið, komið honum hag­an­lega fyrir hér og þar og hafið upp raust mína. Talað yfir fólki, bæði í einka­lífi og á öðrum svið­um. Talið mínar skoð­anir stað­reynd­ir. Og ég get tal­að, úff, hvað ég get tal­að. Fólk hefur þurft að sitja undir steypiregni orða, þar sem ég útlista málin án þess endi­lega að hlusta mik­ið. Til hvers að hlusta, ef maður veit nákvæm­lega hvernig þetta allt saman er?

Jú, maður á að hlusta af því að maður veit aldrei allt og sjaldn­ast nóg. Af því að manns eigin skoð­anir eru ekki endi­lega stað­reynd­ir. Af því að í raun er mik­il­væg­ara að kynn­ast skoð­unum ann­arra en að básúna sínar eig­in. Af því að sam­fé­lag á að byggj­ast upp á sam­ræðum og sam­kennd. Og af því að stjórn­mál án sam­ræðna, sam­fé­lag án rök­ræðna, felur í sér mikla hættu. Svo maður ger­ist dramat­ísk­ur.

Ég hef nefni­lega raun­veru­legar áhyggjur af stöðu stjórn­mála, ekki bara á Íslandi heldur mun víð­ar. Þar helst margt í hend­ur, en í grunn­inn byggir það allt á óþoli og kröfu um ein­fald­leika. Sam­fé­lög eru nefni­lega flókin og það borgar sig oft að huga vel að ákvörð­un­um. Við höfum í það minnsta skýrt dæmi um það í vestri að snöggsoðnar ákvarð­an­ir, sem til­kynnt er um á Twitt­er, eru ekki endi­lega góðar ákvarð­an­ir.

Þannig finnst mér vest­ræn stjórn­mál, íslensk þar með talið, verða æ yfir­borðs­kennd­ari. Við stjórn­mála­menn tölum æ meira í frösum og stað­reyndir urðu fyrsta fórn­ar­lamb­ið. Allt í einu varð ekk­ert mál að afneita því sem áður var sam­eig­in­legur grunnur að sam­tali. Fimm millj­arðar voru ekki lengur fimm millj­arð­ar, 5% eitt­hvað allt ann­að, hækkun varð lækk­un, tap varð að gróða og jafn­vel deilt um fjölda fólks sem ein­hvers nyti, allt eftir því hver talað hverju sinni. Eflaust hefur þetta alltaf verið til stað­ar, en mér finnst sem þetta hafi ágerst eftir hrun og það áger­ist bara. Það er eðli­legt að deila um hvort eitt­hvað sem gert er sé af hinu góða eða ekki, hvort áhrif séu nógu víð­tæk, hvort aðra leið hefði átt að fara. En ef við komum okkur ekki saman um þær stað­reyndir sem við byggjum skoð­anir okkar á, þá er stutt í að stað­reyndir verði jafn­gildar skoð­un­um. Við getum haft skoð­anir á stað­reynd­um, en gætum að því að með því að afneita stað­reynd­unum sjálfum opnum við á að óþægi­legar stað­reyndir séu bara fals­frétt­ir.

Og talandi um frétt­ir. Rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla er þannig að æ minni tími gefst til að kafa ofan í yfir­lýs­ingar og gjörðir stjórn­mála­manna. Fyrir vikið hefur starf frétta­fólks orðið erf­ið­ara, það þarf að koma frétt­unum út og þar er oft og tíðum fyrst og fremst horf á magn. Status á Feis­búkk verður frétt, við­brögð ann­arra við honum að annarri frétt og svo bregst status­höf­und­ur­inn við sem verður að nýrri frétt. Of lít­ill tími er til þess að gera það sem áður var hin gullna regla fjöl­miðl­anna; að gera öllum sjón­ar­miðum skil í einni og sömu frétt­inni. Enn minni tími gefst til að setja sig ofan í ákvarð­anir stjórn­valda, sam­þykktir Alþing­is, að setja orð okkar stjórn­mála­fólks í sam­hengi (kannski hefur ein­hver á fjöl­miðlum tíma til að setja þessi orð mín í sam­hengi við eitt­hvað af því fjöl­marga sem ég hef áður sagt, ekki efa ég að þar finn­ist mót­sagn­ir).

Hvik­lyndi í kviksendi

Þetta helst í hendur við hvik­lyndi okkar sem birt­ist best í því kviksendi sem Feis­búkk er. Takt­ur­inn virð­ist vera sá að við hneyksl­umst og tjáum okkur með gíf­ur­yrð­um, úthrópum þennan eða hinn, fjöl­miðlar skrifa fréttir um hneykslan fólks, sem veldur nýrri hneykslan og svo kemur ný vika með nýju hneyksl­is­máli.

Þetta hefur áhrif á það hvernig við stjórn­mála­menn töl­um. Við pössum hvert ein­asta orð sem frá okkur kem­ur, gætum að svip­brigðum í þing­sal. Segjum við eitt­hvað nógu umdeilt megum við bóka hvirf­il­byl af töggum og statusum á Feis­búkk um það hvað við séum vont fólk sem hugsi bara um eigin rass­gat. Og af hverju svörum við þessu ekki öllu, þykj­umst við of góð til að vera í sam­tali á Feis­búkk? Ein­falda leiðin er að segja sem minnst, en á því ber víða í hinum vest­ræna heimi. Það örlar á þess­ari þróun hér, þó hún sé skammt á veg kom­in.

Lækin tifa létt um máða steina og við stjórn­mála­fólk lifum sífellt meira á því að sem flest læki við það sem við segj­um. Og ekki bara stjórn­mála­fólk, þannig tölum við orðið um stjórn­mál. Þum­al­l­inn er þung­ur, ræður oft og tíðum því hvað er á dag­skrá hverju sinni. Í þeim læk­leik er auð­velt að afbaka og skrum­skæla. Þannig mun fólk ekki eiga í neinum vand­ræðum með að taka ein­staka setn­ingar úr þessum pist­li, skella í gæsalappir og sýna fram á að þessi Kol­beinn vilji banna fólki að ræða um stjórn­mál. Eða hann vilji rit­stýra umræð­unni eða kveinki sér undan rök­ræð­um, hvað er eig­in­lega orðið um Vinstri græn! Slíkt mun fá mörg læk á næsta sam­fé­lags­miðli.

Hrað­inn er orðin aðal­kraf­an. Það þarf að setja út frétt strax. Við þurfum að hneyksl­ast strax og heimta aðgerðir strax. Fyrr á árinu gerðu Banda­ríkja­menn loft­árásir á valin skot­mörk í Sýr­landi um miðja nótt. Um hádeg­is­bil dag­inn eft­ir, á laug­ar­degi vel að merkja, var óþolið yfir við­bragðs­leysi orðið svo mikið að um það voru skrif­aðar frétt­ir. Enn hefur þessi ekki sagt neitt.  Krafa er um skjót við­brögð, við höfum ekki þol­in­mæði fyrir ígrundun og yfir­veg­un, slíkt er litið á sem svik og ving­uls­hátt. Á sama tíma viljum við að stjórn­mál verði fag­legri, en hneyksl­umst um leið á því að stjórn­mála­flokkar fái meiri stuðn­ing og köllum sjálftöku.

Mála­miðlun er dauði

Stjórn­mála­um­ræðan í þing­sal ein­kenn­ist síðan af því sem hér var lýst að ofan; svart er hvítt fyrir sum­um. Skiptir þá engu hvort við erum í stjórn eða stjórn­ar­and­stöðu. Heil­brigð­is­ráð­herra er viku­lega sak­aður um að drepa fólk og alltaf kemst það í fréttir og í umræð­una. Við stjórn­ar­liðar sökum stjórn­ar­and­stöð­una um hitt og þetta, stjórn­ar­and­staðan okkur um hitt og þetta. Og til­raunir til að ræða raun­veru­lega saman fara oft og tíðum fyrir lít­ið. Á dög­unum sagði ég í pontu að umræður um sjáv­ar­út­veg drægju fram það versta í öllu stjórn­mála­fólki, við sök­uðum hvert annað ýmist um að vera und­ir­lægjur útgerð­ar­innar eða að vilja byggð á lands­byggð­inni feiga. Dag­ur­inn var ekki lið­inn þegar einn þing­manna stjórn­ar­and­stöð­unnar afsagði orð mín þannig að þau hefðu aðeins átt við um stjórn­ar­and­stöð­una og sagði mig brokk­andi um á sið­ferði­legum háhesti. Ég skil hann vel, ég er í stjórn­ar­liðinu og hví ætti hann að hlusta á mig nema í gegnum hlust­un­ar­pípu and­stæðra hags­muna?

Skila­boðin eiga líka að vera skýr. Þetta er svona eða hinseg­in, það er eng­inn milli­veg­ur. Annað hvort er þetta gott eða slæmt. Annað hvort stendur rík­is­stjórnin sig vel eða illa, það er ekk­ert rými fyrir að hún standi sig vel í sumu, illa í öðru. Pólarís­er­ingin eykst, þvert á það sem til dæmis ég hafði vonað og óskað eftir í sams­konar pistli hér fyrir ári. Mála­miðl­anir eru fyrir allt of mörgum svik, ekki til­raunir til að reyna að þoka málum áfram í rétta átt. Þol­in­mæðin fyrir því að eitt­hvað sé flókið og á því engin ein­föld lausn, hún er eng­in.

Pólarís­er­ingin hefur síðan til­hneig­ingu til að vinda upp á sig. Þetta fólk er gott, hitt vont. Þau eru frá­bær, hin land­níð­ing­ar. Allt sem þau segja er æði, allt sem frá hinum kemur skelfi­legt.

Æ, ég veit það ekki, kannski er ég of svart­sýnn. Ég hef samt raun­veru­legar áhyggjur af því að allt þetta lagt saman boði ekk­ert gott. Skiptir þá engu hvaða rík­is­stjórn er við völd, áhrifin á umræð­una lifa rík­is­stjórnir af. Óþolið fyrir flóknum útskýr­ing­um, krafan um ein­föld og skýr skila­boð, það að líta á mála­miðl­anir sem svik, tíma­leysi fjöl­miðla til að skýra og veita almenni­legt aðhald, til­hneig­ing okkar stjórn­mála­fólks til að tala í frös­um, ein­tal frekar en sam­tal, það að við hlustum ekki á sjón­ar­mið ann­arra, þrá okkar allra eftir ein­földum og auð­skildum lausnum – allt þetta, og raunar meira til, lagt saman er gróðr­ar­stía popúl­ism­ans.

Við og þið

Þar liggja nefni­lega mínar áhyggj­ur; að innan tíðar sjáum við vin­sælan stjórn­mála­mann sem byggir allt sitt á pólarís­er­ing­unni og ein­földum heild­ar­lausnum, sem ef nánar er að gáð stand­ast illa skoð­un. Stjórn­mála­mann sem fer enn lengra með að skipta öllu upp í okkur og ykk­ur, er enn ákveðn­ari í að hafna stað­reynd­um, boðar enn ein­fald­ari svör við æ flókn­ari spurn­ing­um.

Við Íslend­ingar erum nefni­lega ekk­ert öðru­vísi en annað fólk og alls staðar í lönd­unum í kringum okkur er staðan einmitt svona. Það fer síðan eftir því hve geð­þekkir leið­togar slíkra flokka eru hve stórir flokk­arnir verða, en það hefur sýnt sig að nógu þekkir leið­togar geta skilað fylgi upp á ein­hverja tugi pró­senta. Þegar þangað er komið er of seint að boða meiri sam­töl, frek­ari rök­ræður sem byggi á upp­lýs­ing­um, flókn­ari umræður en ekki ein­fald­ari, að við hlustum meira hvert á ann­að. Þau sem þá þannig tala verða ein­fald­lega flokkuð í flokk­inn þið, ekki hluti af meng­inu við og fyrr en varir verður umræðan enn marker­aðri eftir þeim nótum og það teygir sig í raðir æ fleiri flokka.

Við lifum ár öfganna, nú um stund­ir. Það er undir okkur sjálfum komið hve mörg þau verða og hve afdrifa­ríkar þær öfgar verða.

Ann­ars er ég bara nokkuð hress. Ára­móta­heit mitt er að rök­ræða meira á árinu 2019, hlusta meira, bera meiri virð­ingu fyrir skoð­unum ann­arra. Gleði­legt nýtt ár.

Birtist fyrst í Kjarnanum