FRIÐSAMLEG ALÞJÓÐASAMSKIPTI

Jöfnuður á heimsvísu er mikilvægt viðfangsefni nýrrar aldar en aukinn ójöfnuður innan ríkja og milli ríkja kallar á róttækar breytingar á því hvernig við tökumst á við áskoranir samtímans. Þar má til dæmis nefna samstarf í skattamálum og breytta og sanngjarna viðskiptahætti. Sama á við um loftslagsbreytingar sem eru stærsta úrlausnarefni samtímans og kalla á gerbreytta stefnu í orkunotkun og losun kolefnis.

Íslensk stjórnvöld eiga að hafna hernaðaríhlutunum, beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun sem og að vinna gegn vopnaframleiðslu og vígbúnaði. Samhliða því geta stjórnvöld stuðlað að friðsamlegri heimi með því að stórauka framlag sitt til þróunarsamvinnu.

Betri alþjóðleg viðskipti

Berjumst gegn alþjóðlegum fríverslunarsamningum sem færa aukið vald til stórfyrirtækja á kostnað almennings. Eflum samstarf í skattamálum og tryggjum þannig aukið gagnsæi og bætta skattheimtu. Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn skattaskjólum. Hvorttveggja stuðlar að jöfnuði.

Eflum þróunarsamvinnu

Ísland taki þátt í þróunarsamvinnu með myndarlegum hætti og stórauki framlög til málaflokksins til samræmis við markmið Sameinuðu þjóðanna.

Tökum á móti fleiri flóttamönnum

Sífellt fleiri eru á flótta í heiminum undan stríðsátökum og afleiðingum loftslagsbreytinga. Ísland þarf að taka þátt í því að axla ábyrgð í þessum efnum. Þess vegna eigum við að taka á móti umtalsvert fleiri flóttamönnum, að lágmarki 500 á ári. Jafna þarf aðstæður hælisleitenda og svokallaðra kvótaflóttamanna og tryggja fullnægjandi framkvæmd nýrra útlendingalaga með fjármagni og mannafla.

Friðsamlegar lausnir

Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga, tala fyrir friði hvarvetna í alþjóðasamfélaginu og beita sér fyrir pólitískum lausnum á átökum.