1. maí ávarp formanns VGR

1. maí ávarp formanns VGR

Kæri lesandi.

Það eru sannarlega sérstakir tímar sem við lifum um þessar mundir. Í fyrsta sinn kemur 1. maí blað Vinstri grænna í Reykjavík einungis út í rafrænu sniði, kröfuganga verkalýðsins fer ekki fram og 1. maí kaffi VGR verður ekki haldið. Fyrstu mánuðir ársins 2020 hafa aldeilis verið naprir og ekki laust við að orð Halldórs Laxness eigi við: „Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref.“ Atvinnuleysi eykst og er orðið tæplega 17% og á sumum stöðum, líkt og í Reykjanesbæ, um og yfir 20%. Það er á tímum sem þessum sem samfélagið og almenningur þarf sérstaklega á verkalýðsfélögum og baráttu þeirra að halda. Þegar harðnar í ári sjáum við skýrt og skilmerkilega hversu mikilvæg hatrömm barátta verkalýðsfélaga alla síðustu öld hefur verið, réttindi sem við teljum nú sjálfsögð voru

ekki fengin baráttulaust. Á tímum sem þessum þurfum við að standa saman og minna hvort annað á hver réttur okkar er sem vinnandi fólks. Síðustu áratugi hefur nýfrjálshyggjan sótt að réttindum verkalýðsins og hefur barátta verkalýðsfélaganna snúið frekar að því að standa vörð um áður áunnin réttindi. Það er talsvert annars konar barátta en Gúttóslagurinn eða Borðeyrardeilan forðum. Síðastliðin ár hefur forysta verkalýðshreyfingarinnar tekið stakkaskiptum og snúið vörn í sókn, hún hefur sett ný markmið og ný viðmið. Lífskjarasamningarnir eru dæmi um ferskan andvara í baráttu verkalýðsfélaganna en líka nýja stjórnunarhætti undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Í upphafi árs voru þó nokkrir kjarasamningar undirritaðir samt sem áður eru stéttir með lausa samninga, þar má einna helst nefna samingana við hjúkrunarfræðinga sem hafa verið lausir skammarlega lengi. Í dag eru það þó enn nýjar áskoranir sem samfélagið okkar stendur frammi fyrir, takast þarf á við eftirmála Covid-19 og grípa þarf til aðgerða til að sporna við auknu atvinnuleysi. Á sama tíma þarf að viðhalda kröfunni um réttlátara skattkerfi, sanngjarnari skiptingu og jafnara samfélag. Nú er þó kannski lag, að úr ösku óvissu ástandsins sem skelfir samfélagið núna sé hægt að byggja betra og jafnara samfélag. Að hægt verði að gefa upp á nýtt, takast á við risavaxin langvarandi vandamál samfélagsins. Einn af þeim lærdómum sem draga má af ástandinu verður án efa sá að ríkisvaldið hefur tæki og tól til að takast á við risavaxin vandamál. Út um allan heim verja ríkisstjórnir ógrynni af fjármunum til að styðja við atvinnulíf og heilbrigðiskerfi. Það sýnir okkur að hægt er að ráðast í sambærilegar aðgerðir gegn fátækt og loftslagsbreytingum, sem ekki má gleyma að eru enn stærstu áskoranir mannkynsins á 21. öld. Þessi 1. maí er vægast sagt óvenjulegur og þrátt fyrir að við getum ekki komið saman og marserað niður Laugaveginn, krafist betri kjara undir lúðraþyt og söng, þá megum við samt ekki hætta að berjast. Þótt verkefnin framundan virðist yfirþyrmandi þá skulum við leyfa okkur að fagna því að „í kvöld lýkur vetri sérhvers vinnandi manns, og á morgun skín maísól, það er maísólin hans.“

Ragnar Auðun Árnason, formaður VGR